Lægstu laun hækka um allt að 30%

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Lægstu laun hækka um allt að 30,3 prósent samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsgreinasambandsins sem samþykktur var með um 80 prósentum atkvæða á dögunum.

Kjarasamningurinn gildir frá 1. janúar á þessu ári til 30. september 2023. Aðild að Starfsgreinasambandinu eiga 17 stéttarfélög innan ASÍ. Í tilkynningu á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að Lífskjarasamningurinn, sem gerður var á almennum vinnumarkaði á síðasta ári, hafi verið til grundvallar í viðræðunum enda hafi hann þegar skapað skilyrði til lægri vaxta og minni verðbólgu. 

Taxtalaun hækka um 90.000 krónur án persónuálags á samningstímanum. Í tilkynningu Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að lægstu launin hækki mest eða um allt að 30,3 prósent. Persónuálagið er að meðaltali 8 prósent. Tekið er dæmi um leiðbeinendur á leikskólum í tilkynningunni. Byrjunarlaun urðu 324.515 krónur frá 1. janúar 2020 en hækka í 414.215 krónur 1. janúar 2022 samkvæmt samningnum. Með persónuálaginu verði þau 447.352 krónur 1. janúar 2022. 

Fréttin hefur verið uppfærð.   

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi