Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kynþáttafordómar og hermannakveðjur

epa07920968 Supporters of Bulgaria during the UEFA EURO 2020 qualifying group A soccer match between Bulgaria and England, in Sofia, Bulgaria 14 October 2019.  EPA-EFE/GEORGI LICOVSKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Kynþáttafordómar og hermannakveðjur

14.10.2019 - 23:29
Leikur Búlgaríu og Englands í forkeppni EM var stöðvaður tvisvar í kvöld vegna óláta og kynþáttahaturs búlgarskra fótboltabulla. Nokkrir þeirra sem höfðu sig mest frammi voru reknir úr stúkunni áður en leik var haldið áfram í seinna skiptið. Englendingar sigruðu Búlgara 6-0. Þeldökkir leikmenn þeirra, sem urðu fyrir aðkasti búlgörsku fótboltabullanna, skoruðu helming markanna. Nokkrir leikmenn tyrkneska landsliðsins fögnuðu jöfnunarmarki gegn Frökkum með hermannakveðju.

Hópur svartklæddra áhangenda búlgarska landsliðsins hrópuðu ókvæðisorð að leikmönnum enska liðsins og hermdu eftir öpum. Sumir voru klæddir treyjum með orðunum „Engin virðing“ á ensku. Þar vísuðu þeir til herferðar knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, gegn kynþáttafordómum í fótbolta. Sú herferð nefnist Virðing. Að auki sýndu mennirnir nasistakveðju í gríð og erg.

Leikmenn og aðstandendur enska liðsins höfðu búið sig undir hið versta, meðvitaðir um útbreiðslu kynþáttafordóma í tengslum við búlgarskan fótbolta. Það fór illa í Krasimir Balakov, þjálfara Búlgaríu, sem sagði fyrir leik að Bretar ættu við meiri vandamál að stríða en Búlgarar í þeim efnum. Eftir leik svaraði Raheem Sterling, leikmaður enska liðsins, honum á Twitter.

Þá hafði mikið gengið á. Leikur var stöðvaður eftir 28. mínútur. Vallarþulurinn tilkynnti að áframhaldandi kynþáttafordómar yrðu ekki liðnir. Þetta gerði þulurinn að beiðni dómarans eftir að Gareth Southgate, þjálfari Englands, kvartaði undan kynþáttafordómum. Leikurinn hófst svo aftur en annað hlé var gert fyrir hálfleik þar sem ekki dró úr látunum. Southgate átti þá langt samtal við dómarann um framhaldið. Það hlé varð öllu lengra en það fyrra og meðan á því stóð var einhverjum tugum fótboltabulla vikið af velli. 

Stóðu allir saman

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, sagði að síðustu dagar hefðu verið mjög óvenjulegir. „Við þurftum að undirbúa okkur fyrir þennan möguleika. Mikilvægast var að bæði leikmenn og aðstandendur liðsins voru sammála um hvað við myndum gera.“ Southgate sagði að enginn ætti að ganga í gegnum það sem ensku leikmennirnir þurftu að þola í kvöld. Hann þakkaði þó dómaranum fyrir að hafa brugðist vel við og átt góð samskipti við stjórnendur enska liðsins. „Við hefðum getað gengið af velli þegar leikurinn var stöðvaður í annað skipti en leikmenn voru ákveðnir í að klára fyrri hálfleik og ræða stöðuna í leikhléinu,“ sagði Southgate. „Enginn leikmaður vildi stöðva leikinn, þeir voru alveg ákveðnir í því.“

UEFA er með þriggja þrepa kerfi sem getur leitt til þess að leikir séu blásnir af vegna kynþáttafordóma.

Southgate sagði að enska liðið hefði svarað fordómunum með tvenns konar hætti, annars vegar með því að láta fótboltann tala í 6-0 sigri og hins vegar með því að stöðva leikinn tvisvar og vekja athygli á því sem fór fram.

Krasimir Balakov, þjálfari búlgarska liðsins, sagðist ekki hafa orðið var við kynþáttafordóma. Hann sagði hins vegar mjög miður ef sú hefði verið raunin. „Ég sá að dómarinn stöðvaði leikinn en ég verð að segja að hegðunin var ekki aðeins af hálfu búlgarskra stuðningsmanna heldur líka enskra, sem blístruðu og öskruðu meðan búlgarski þjóðsöngurinn var fluttur.“

epa07921001 Players of Turkey celebrate a goal during the UEFA EURO 2020 qualifier soccer match between France and Turkey held at Stade de France Stadium in Paris, France, 14 October 2019.  EPA-EFE/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nokkrir leikmenn tyrkneska landsliðsins fagna jöfnunarmarki sínu í kvöld.

Fögnuðu með hermannakveðju

Það var ekki aðeins í Búlgaríu sem umdeildir hlutir gerðust. Innrás Tyrkja í Sýrland hefur mætt harðri gagnrýni. Eftir að leikmenn tyrkneska landsliðsins gerðu hermannakveðju til að sýna stuðning sinn við tyrkneska í síðasta landsleik voru þeir harðlega gagnrýndir. Meðal annars af frönskum stjórnmálamönnum. Tyrkneska landsliðið gerði jafntefli við það franska í París í kvöld, 1-1. Nokkrir leikmanna landsliðsins fögnuðu markinu með hermannakveðju fyrir framan stuðningsmenn Tyrkja. Það gæti kallað á rannsókn af hálfu UEFA sem bannar stjórnmálayfirlýsingar á vellinum.