Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kynsvall og saurlifnaður Strauss-Kahn

10.02.2015 - 18:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Dominique Strauss-Kahn bar í dag vitni fyrir rétti í Lille (Lílle) í Frakklandi en hann er sakur um stórfellt hórmang og stóðlífi. Strauss-Kahn var einn valdamesti maður heims en varð á svipstundu forsmáður og utangarðs.

Dominique Strauss-Kahn hafnar því alfarið að hafa stundað hórmang og segist ekki hafa vitað að konur í svallveislum sem hann stundaði hafi verið vændiskonur. Hann sagði fyrir dómi í morgun að gjálifnaður sinn væri stórlega ofmetinn, hann hafi einungis tekið þátt í tólf svallveislum á þriggja ára tímabili. Hann er sakaður um hlutdeild í að útvega konur í vændishring sem starfræktur var í hóteli í borginni Lille. Það er ekki ólöglegt að nýta sér þjónustu vændiskvenna í Frakklandi en það samrýmist ekki lögum að útvega vændiskonur eða taka þátt í því. Saksóknarinn segir að Strauss-Kahn sem er 65 ára hafi gegnt lykilhlutverki í vændishringnum og skipulagningu svallveislna. Hann hafi verið konungur svallsins. Verði hann fundinn sekur getur hann átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi.

Þegar Strauss-Kahn kom til dómshússins í morgun tóku á móti honum þrjár berbrjósta konur að mótmæla. Hórmangari, viðskiptavinur og sekur var ritað yfir brjóst þeirra. Lögregla fjarlægði konurnar og Strauss-Kahn gat borið vitni. Málflutningur hófst annan febrúar en vitnaleiðslur yfir Strauss-Kahn hófust í morgun og standa í þrjá daga. Í gær fullyrti vændiskonan Mounia að hún hefði fengið níu hundruð evrur eða hundrað og fjörutíu þúsund krónur frá kaupsýslumanninum David Roquet fyrir að taka þátt í svallkvöldi þar sem hún hafi eingöngu átt að sinna þörfum Strauss-Kahn. David Roquet sem er fjörutíu og sex ára, segir að svallveislurnar hafi verið viðskiptalegs eðlis. Þær hafi verið mikilvægar fyrir verktakafyrirtæki sitt og tryggt aðgang að Strauss-Kahn. Hann fullyrðir að Strauss-Kahn hafi skemmt sér vel í þessum veislum og að yfirleitt hafi fimm eða sex pör tekið þátt í þeim. Þrettán eru ákærðir í málinu, meðal annars stjórnendur hótelsins, lögfræðingur, fyrrum lögreglustjóri og eigandi hóruhús sem kallaður er Dodo hórmangari. Þeir eru sakaðir um hórmang en Strauss-Kahn er sakaður um að hafa nýtt sambönd sín til að ráða stúlkur í kynlífssvall í París, Lille og Washington.

Dominique Strauss-Kahn var einn sá alvirtasti í alþjóðlegum viðskiptum, orðlagður fyrir að hafa næma þekkingu á efnahagsmálum, skarpskyggni á pólitískt landslag og einstakan sannfæringakraft. Hann var virtur sem framkvæmdastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og árið 2011 var hann á leið í forsetaframboð í Frakklandi gegn Nicolas Sarkozy. Það varð að engu í maí árið 2011 þegar bandarísk stjórnvöld lögðu fram ákæru vegna tilraunar til nauðgunar. Strauss-Kahn neyddist til að segja af sér yfirmaður Alþjóða gjaleyrissjóðsins, þótt ákærunni hafi verið vísað frá og sáttum náð í einkamáli gegn honum, utan réttarsala. Hneykslisaldan fjaraði þó engan veginn út. Mánuðum saman var einkalíf hans atað auri í fjölmiðlum og virðing hans og framavonir að engu orðnar. Rothöggið kom svo í mars árið 2012 þegar franska lögreglan hóf rannsókn á meintri þátttöku hans í umfangsmiklum vændishring. Carton málið er það kallað eftir hótelinu í Lille þar sem kynsvallið fór fram. Strauss-Kahn hefur viðurkennt að hafa tekið þátt í svallinu en borið því við að hafa ekki vitað að stúlkurnar væru vændiskonur. Hámarksrefsing er tíu ára fangelsi og tvö hundruð og þrjátíu milljóna króna sekt. Strauss-Kahn neitar sök.

Foreldrar hans voru vinstri sinnaðir gyðingar. Strauss-Kahn fæddist í Frakklandi árið 1949 en ólst upp í Marokkó til ellefu ára aldurs. Hann lærði lögfræði og hagfræði við fínustu skóla Frakklands, varð þingmaður, iðnaðarráðherra og skipaður fjármálaráðherra landsins árið 1997  en varð að segja af sér árið 2000 vegna ásakana um spillingu en var síðar hreinsaður af þeim ásökunum. Hann hafði augastað á forsetaembættinu en varð árið 2006 að lúta í lægra haldi fyrir Segolene Royal í forvali Sósíalistaflokksins fyrir forsetakosningarnar. Hann varð framkvæmdastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðisins árið 2007 og var talinn líklegur sem næsti forseti Frakklands þegar óveðurskýin tóku að hrannast upp árið 2011. Einn valdamesti maður heims varð á svipstundu forsmáður og utangarðs.

Strauss-Kahn dáleiddi fólk með orðkyngi sinni og leiftrandi gáfum. Simon Johnson, hagfræðingur hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum segir að hann hafi verið stórkostlegur stjórnandi sem gat vafið fólki um fingur sér. Hann hafi verið eins og heimsklassa skákmaður sem alltaf sá marga leiki fram í tímann. Strauss-Kahn var langt frá því að vera leiðinlegur fræðimaður en þotulifnaðurinn varð honum að falli. Hann þótt alltaf mikið upp á kvenhöndina og var oft nefndur Chaud Lapin eða heita kanínan. Árið 2008 átti hann í ástarsambandi við starfsmann Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og var sakaður um kynferðislega áreitni og misbeitingu valds. Innri skoðun hreinsaði hann af þeim ásökunum. Rithöfundurinn Tristane Banon sakaði hann um kynferðislega áreitni og kona sakaði hann og fleiri um hópnauðgun á hóteli í Washington. Fjölmörg sambærileg dæmi eru til en Strauss-Kahn hefur búið við það að í Frakklandi þótti lengi vel ekki til siðs að hnýsast í einkalíf ráðamanna og hjákonur þóttu ekki tiltökumál.

Eiginkona hans í ríflega tvo áratugi, bandarísk-franski blaðamaðurinn Anne Sinclair gafst að lokum upp óg skildi við hann árið 2012. Hún var einn auðugasti erfingi Frakklands. Henni tæmdist gríðarlegur arfur frá afanum, Paul Rosenberg sem var umsvifamesti listaverkasali Frakklands á sinni tíð, umboðsmaður manna eins og Pablo Picasso og Henri Matisse. Strauss-Kahn og Anne Sinclair áttu mikil auðæfi og fasteignir í París, Washington og Marrakesh í Marakkó. Óseðjandi kynlífsþrá varð þessum valdamikla manni að falli.