Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kynntu niðurstöður rökræðukönnunar

25.01.2020 - 13:32
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Helstu niðurstöður rökræðukönnunar um stjórnarskrá voru kynntar í Veröld í morgun. Félagsvísindastofnun, Öndvegisverkefnið lýðræðisleg stjórnarskrárgerð og Center for Deliberative Democracy héldu fundinn.

Í tilkynningu kemur fram að þátttakendum í viðhorfskönnun síðasta sumar um nokkur atriði í stjórnarskrá Íslands hafi verið boðið að taka þátt í umræðufundi í Laugardalshöll í byrjun nóvember um sömu atriði, sem séu til endurskoðunar á þessu kjörtímabili. 233 manns hafi þegið boðið, eða um tíu prósent þeirra sem svöruðu viðhorfskönnuninni. 

Á umræðufundinum í Laugardalshöll hafi verið rætt um embætti forseta Íslands, þjóðaratkvæðagreiðslur, Landsdóm og ákæruvald Alþingis, breytingaákvæði stjórnarskrárinnar og alþjóðasamstarf. Viðhorf þátttakenda hafi síðan verið könnuð. Á fundinum í morgun var farið yfir breytingar sem hafi komið fram á viðhorfum þátttakenda og hvernig túlka megi þær.

Ekki hafi komið fram marktækar breytingar á viðhorfum þátttakenda til nokkurra þátta forsetaembættisins en umtalsverðar breytingar á viðhorfum til ákvæðis stjórnarskrár um alþjóðasamvinnu og ákvæðis um ákæruvald Alþingis og Landsdóm.

Í tilkynningu um viðburðinn kemur fram að rökræðukönnun byggi á aðferðafræði sem James Fishkin, prófessor við Stanford háskóla, hafi þróað og útfært. Markmið hennar er að sameina kosti almenningsþátttöku í rökræðum og hefðbundinnar skoðanakönnunar.  

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV