Kynjamunur í launahækkun en ekki lækkun

06.10.2018 - 17:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Launalækkanir gengu jafnt yfir bæði kynin eftir hrun, segir Katrín Ólafsdóttir lektor í viðskiptafræði. Þær voru mjög víðtækar og lækkuðu um fjórir af hverjum fimm í launum frá 2008 til níu. Af þeim sem hækkuðu fengu karlar meiri launahækkanir en konur.

Katrín var einn þeirra fræðimanna sem flutti fyrirlestur á ráðstefnu Háskóla Íslands „Hrunið, þið munið". Hún er lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík: 

„Svona við fyrstu sýn virkar það þannig að karlar hafi fengið meiri launalækkanir heldur en konur. En þegar búið er að skoða það að konur voru með lægri laun til þess að byrja með að þá kemur í ljós að það var í rauninni enginn kynjamunur á því hvernig farið var með launalækkanirnar.“ 

Ákveðnar vísbendingar meðal annars í fyrri rannsókn höfðu bent til minni launalækkana hjá konum. 

„Þannig að þetta mynstur sem við þekkjum að laun undir 300 þúsundum voru ekki skert og síðan skert þar fyrir ofan, þetta var reyndar sama mynstur sem gekk yfir bæði konur og karla.“

Eftir hrun fengu lægstu launahóparnir hækkun, næsti hópur var með óbreytt laun, en hæstu launahóparnir lækkuðu og lækkun var meiri eftir því sem laun voru hærri, segir Katrín. Launabilið eða launadreifingin minnkaði þarna fyrst eftir hrun. 

Katrín skoðaði bæði þá hópa sem lækkuðu í launum og líka þá sem hækkuðu fyrst eftir hrun. Enginn munur var milli kynja á þeim sem lækkuðu í launum. 
 
„Ef ég tek hins vegar bara þá sem hækkuðu í launum milli 2008 og 2009, sem var reyndar bara hluti af öllum, það voru langflestir sem fengu launalækkun. En af þeim sem hækkuðu að þá var því meiri hækkun því lægri sem launin voru en þar kemur í ljós klár kynjamunur að karlarnir fengu meiri launahækkanir heldur en konur í þeim hópi sem á annað borð fékk launahækkun.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi