Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kynjamisrétti auki líkur á misbeitingu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Kynjamisrétti auki líkur á misbeitingu

12.01.2018 - 19:31
Ójafnt vægi kvenkyns og karlkyns íþróttafólks eykur líkurnar á mismunun og misbeitingu í íþróttastarfi. Þetta segir íþróttasálfræðingur. Því sé mikilvægt að jafna stöðu kynjanna.

Íþróttakonur sendu frá sér yfirlýsingu í gær, ásamt 62 frásögnum af kynbundnu ofbeldi, áreitni og mismunun. Athygli vakti að margar frásagnir voru af grófu kynferðisofbeldi og nauðgunum. 

„Í grunninn hefur verið gríðarlegt ójafnrétti í íþróttahreyfingunni í mjög langan tíma, þar sem konur hafa þurft sífellt að sanna fyrir öllum að þær eigi tilvistarrétt og ég held að það geti verið rótin. Og það er eitthvað sem við erum alltaf að reyna að breyta, að reyna að jafna stöðu kynjanna. En þetta hefur gert það að verkum að staða kvenna í íþróttum er mun veikari en staða karla, og það gerir það að verkum að þær eiga m.a. erfiðara með að verja sig ef þær verða fyrir einhvers konar mismunun eða áreitni, alvarlegu ofbeldi,“ segir Helgi Héðinsson, íþróttasálfræðingur. „Þessi brot sem hafa komið fram í #metoo, og öll þessi sem hafa ekki komið fram á yfirborðið, þetta hefur bara verið þaggað niður.“

„Hingað og ekki lengra“

Fjallað var um frásagnir íþróttakvenna af kynbundnu ofbeldi, áreitni og mismunun á fundi íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur í dag. Íþrótta- og tómstundaráð leggur áherslu á mikilvægi þess að Íþróttabandalag Reykjavíkur og þau íþróttafélög sem fá framlög samkvæmt samningi við Reykjavíkurborg, muni bregðast við þessum frásögnum og leggja fram áætlun um hvernig verði unnið úr þessari stöðu. Þá mun Íþrótta- og tómstundaráð framvegis beita sér fyrir því að íþróttafélög skili inn áætlun um verkferla og aðgerðir gegn hvers kyns ofbeldi eins og einelti, kynferðisafbrotum og kynferðislegri og kynbundinni áreitni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra íþróttamála, ætlar að stofna starfshóp í samvinnu við íþróttahreyfinguna til að bregðast við brotum tengdum kynferðislegu ofbeldi og áreitni. „Þetta er einhver menning sem hefur fengið að viðgangast í ákveðinn tíma, og þess vegna er svo mikilvægt að þeir sem hafa orðið fyrir svona ofbeldi stigi fram til þess að segja hingað og ekki lengra, við erum að fara að taka á þessu,“ segir Lilja Dögg.

„Við þurfum að fræða iðkendur um þessi mál, og þeirra réttindi. Við þurfum að fræða þjálfara, og við þurfum að fræða stjórnendur og við þurfum líka að fræða foreldra, því mikið af þessum iðkendum eru undir lögaldri, þeir eru í þannig stöðu að þeir eru ekki að fara að segja frá ef þeir lenda í einhverju, þeirra staða er þess eðlis,“ segir Helgi. „Í ljósi þess hversu viðkvæmt samband iðkenda og þjálfara er, þá þarf að liggja fyrir hjá öllum íþróttafélögum einhver rammi; hvaða samskipti eru eðlileg og hvaða samskipti eru ekki eðlileg.“

 

Tengdar fréttir

Íþróttir

Ásdís: „Ég veit að hann gekk of langt“

Innlent

„Hefur viðgengist allt of lengi“

Íþróttir

Sömdu við þjálfara Hólmfríðar um að þegja

Jafnréttismál

Níu íþróttakonur segja frá nauðgun