Kynjagleraugun eru mikilvæg í skipulagsmálum

03.03.2020 - 07:30
Mynd: RÚV / RÚV
Forstjóri Skipulagsstofnunar segir mikilvægt að hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi þegar rætt er um skipulagsmál. Það geti leitt til fjölbreyttari lausna.

Á Jafnréttisþingi í Hörpu benti forstjóri Skipulagsstofnunar á rannsóknir sem benda til þess að konur veigri sér frekar við að hjóla í mikilli umferð. Ein af ástæðum þess er talin vera skipulagslegs eðlis. Karlar séu áhættusæknari og hafi einnig komið í meira mæli að skipulagningu vega. 

„Þetta voru tæknimenntaðir karlar innan stofnana sem fóru með völdin og skilgreindu viðfangsefnin og verkefnin. Kynjagleraugun skipta máli,“ segir Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar.

Þrátt fyrir að vægi kvenna í skipulagsmálum sé að aukast segir Ásdís Hlökk að enn sé þó verið að berjast við rótgrónar venjur.

„Það er innbyggð talsverð tregða í kerfin okkar. En þegar við horfum yfir síðustu ár og áratugi sjáum við feikilega breytingu sem hefur orðið á nálgun og vinnubrögðum. Það gefur manni kraft til að halda áfram.“

Hún telur að það geti leitt til fjölbreyttari lausna í skipulagsmálum að gefa fleiri röddum vægi. 

„Við höfum verið að sjá, því miður, slys á börnum við fjölfarnar götur í þéttbýli bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og norður á Akureyri nýverið,“ segir Ásdís Hlökk, en sjálfgefin lausn á slíkum slysum hafi iðulega verið sú að grafa þyrfti göng undir slíkar götur fyrir börnin í stað þess að horfa á víðara samhengi.

„Vissulega er það ein aðgerð sem kemur til greina en ef við horfum til framtíðar og víðari sjónarhorna eigum við þá ekki frekar og allt eins að horfa á lausnir sem lúta því að þrengja að bílunum og hægja á umferðinni og hafa umhverfið á forsendum barnanna og hinna gangandi?“

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi