Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kynin lagalega jöfn í sex ríkjum heims

02.03.2019 - 04:55
Mynd með færslu
 Mynd: Inspirally
Ísland kemst nálægt því að vera í hópi þeirra ríkja þar sem algjört lagalegt jafnrétti kynjanna ríkir á vinnumarkaði. Aðeins sex ríki ná algjöru jafnrétti samkvæmt árlegri rannsókn Alþjóðabankans á stöðu kvenna, viðskipta og laga í 187 ríkjum heims.

Ríkin sex eru Danmörk, Svíþjóð, Frakkland, Lettland, Belgía og Lúxemborg. Staðan er öllu betri en fyrir áratug þegar hvergi ríkti algjört lagalegt jafnrétti. Í rannsókninni er litið til átta þátta sem hafa áhrif á konur á vinnumarkaði. Til að mynda er litið til ferðafrelsis og lífeyrisgreiðsla. Það er í síðarnefnda flokknum þar sem Íslandi vantar eitt jákvætt svar til þess að skipa sér í hóp ríkjanna sex. Þar er spurningunni hvort lög hér á landi veiti skýr lífeyrisréttindi fyrir tímabilið sem börn eru í dagvistun svarað neitandi. Ísland hlýtur ásamt Ástralíu og Serbíu 96,88 stig af 100 mögulegum.

Verst er staðan í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, og þar hefur einnig orðið minnst framför síðasta áratuginn. Ríkin skora að meðaltali undir 50 stigum í rannsókninni, og hækka aðeins um tæp þrjú stig yfir tíu ára tímabil. Í það heila er meðaltalið 75 stig, en það var 70 stig fyrir áratug. 

Fullkominn árangur í þessari rannsókn þýðir þó ekki að algjört jafnrétti ríki á milli kynjanna. Launamunur kynjanna er enn áberandi, en í Svíþjóð þéna konur fimm prósentum minna en karlar í sama starfi. Guardian hefur eftir Kristalinu Georgievu, sem gegnir embætti formanns Alþjóðabankans tímabundið, að jafnrétti sé grundvöllur hagvaxtar. Það sé alveg ljóst að samfélög verða ríkari af því að veita konum tækifæri innan þeirra.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV