Kynfræðslan sem þú fékkst aldrei

Mynd: Indíana Rós / Indíana Rós

Kynfræðslan sem þú fékkst aldrei

12.08.2019 - 14:31
Nú eru Hinsegin dagar í Reykjavík og dagskráin hefur aldrei verið jafn þétt. Einn af viðburðum hátíðarinnar er hinsegin kynfræðsla. Indíana Rós kynfræðingur ræðir helstu nauðsynjar ástarlífsins.

Hinsegin kynfræðsla fer fram miðvikudaginn 14. ágúst á Þjóðminjasafni Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl. 16.30 og er ókeypis og opinn öllum. Indíana leggur áherslu á það sem hinsegin fólk fær ekki að vita í kynfræðslu.  

Kynfræðslan sem Indíana man eftir er hræðsluáróður um kynsjúkdóma, hvernig þú átt að nota smokkinn og hvernig tíðahringurinn virkar. En ekki til dæmis hvernig þú átt að verjast kynsjúkdómum við munnmök eða hvernig sleipiefni þú átt að nota við endaþarmsmök, sem á að sjálfsögðu einnig við um gangkynhneigða. Þetta er því kynfræðslan sem þú fékkst aldrei.

Fyrirlesturinn er einungis klukkutími svo Indíana kemur til með að stikla á stóru. Indíana segir að mikið vanti í almenna kynfræðslu. Hér á landi hafi hún breyst frá því að hún var sjálf í kynfræðslu. Hún hefur sjálf staðið fyrir kynfræðslu í grunnskólum, framhaldsskólum og fyrir nemendur í Ástráði, kynfræðslufélagi læknanema.

„ Við erum flest að stunda kynlíf ekki til að fjölga okkur. Við erum að stunda kynlíf af því að það er gott og gaman.“

Indíana er með B.S.-gráðu í sálfræði. B.S.-ritgerð hennar fjallaði um sjálfsfróun kvenna, hún komst að því að fáir höfðu fengið fræðslu um hana. Í dag er hún að ljúka meistaragráðu í kynfræði í Philadelphiu í Bandaríkjunum.