Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kynbundinn launamunur eykst

12.10.2017 - 16:37
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Kynbundinn launamunur minnkar hjá SR, Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, en eykst hjá SFR stéttarfélagi í almannaþjónustu. Þetta kemur fram í sameiginlegri fréttatilkynningu frá félögunum.

Gallup vann launakannanirnar fyrir félögin. Sömu aðferðir eru notaðar við útreikninga í báðum könnunum. 

Launamunur eykst hjá SFR

Samkvæmt könnuninni hefur kynbundinn launamunur aukist hjá félagsmönnum SFR, sem starfa hjá ríki og sjálfseignarstofnunum.  Launamunur kynjanna er nú 13 prósent þegar tekið hefur verið tillit til þátta sem hafa áhrif á laun eins og vinnutíma, vaktavinnu, mannaforráða o.fl. Launamunurinn var minnstur árið 2013, 7%, en er nú eins og hann var fyrir hrun. 

Launamunur minnkar hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar

Kynbundinn launamunur hjá félögum í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar hefur hins vegar minnkað. Hann var tæp 9% árið 2013 en er nú 4%. Þegar félagsmenn sem starfa hjá Reykjavíkurborg eru teknir út þá mælist kynbundinn launamunur 1,3%. 

Karlar fá hærri aukagreiðslur og hlunnindi

Mikill munur er á aukagreiðslum og hlunnindum milli kynja, en munurinn er meiri hjá SFR en Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar.

Í fréttatilkynningu frá félögunum segir að svo virðist sem launamunurinn verði fyrst og fremst til á borði stjórnenda sem greiði körlum hærri aukagreiðslur en konum. 

Launamunur opinbera og almenna markaðarins minnkar

Niðurstöður kannananna voru bornar saman við niðurstöður sambærilegra kannana annarra félaga. Í fréttatilkynningu frá SFR og St.Rv. segir að VR-félagar hafi alltaf mælst með hærri laun en félagar á opinberum markaði þau ár sem félögin hafa gert slíkar kannanir. Munurinn hafi nú minnkað örlítið milli ára og eru VR-félagar nú með 14% hærri laun en SFR félagar en 16% hærri en St.Rv.-félagar, þegar tekið hefur verið tillit þeirra þátta sem áhrif hafa á laun.