Kyn getur skipt máli í verkefnum lögreglunnar

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV

Kyn getur skipt máli í verkefnum lögreglunnar

31.05.2019 - 15:32
Guðmundur Felixson og Hafdís Helga Helgadóttir fjölluðu um lög og reglur í nýjasta þætti Allskyns. Þau ræða meðal annars löggjafarvaldið og dómsvaldið. Muninn á því að vera karl eða kona í stjórnmálum ásamt því að skoða réttarvörslukerfið og hvort það skipti máli hvors kyns þú ert í lögreglunni.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Segir að það að vera alþingismaður sé mjög spennandi starf „Það er mjög fjölbreytt og þú hittir rosalega mikið af mismunandi fólki á landinu“.

Áslaug er að gera mjög fjölbreytta hluti í vinnunni og það er það sem henni þykir skemmtilegast við alþingisstarfið en vinnustaðamenningin er ekkert sérstaklega fjölskylduvæn. Til þess að fá meiri þátttöku kvenna í stjórnmál og til að þær endist jafn lengi og karlarnir í starfi þá þurfi að breyta vinnustaðamenningunni. 
    
Samkvæmt henni virðist Alþingi vera nokkuð aðgengilegur vinnustaður fyrir utan einstök komment á Facebook og einstaka fundi á Klausturbar. 

Alþingismenn setja lögin í landinu en það eru lögreglumenn sem sjá til þess að þeim sé framfylgt. Gummi og Hafdís vildu heyra meira um málið og fengu því Birgi Örn Guðjónsson eða Bigga löggu eins og flestir þekkja hann til að segja sér frá stöðu kynjanna innan lögreglunnar. „Sumir halda einmitt að Biggi Lögga sé einhver fígúra sem er búin til af lögreglunni en það var ekki þannig, þetta er bara algjörlega sjálf sprottið,“ segir Birgir.  

Hann segir lögreglustarfið rosalega margþætt svo það skipti máli í raun og veru upp á starfið hvort þú sért karl eða kona en það sé líka gífurlega mikilvægt að það séu bæði karlar og konur í lögreglustarfinu. Í gegnum tíðina hefur þessi starfsstétt verið gífurlega karllæg og það voru nánast bara karlar sem fóru í lögregluna. Fyrsta konan sem fór að vinna í þessari stétt hóf störf í kringum 1970.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - Canon 5D

Nýjustu tölur sýna að 16% lögreglumanna séu konur og 84% karlar. Í dag eru konur um helmingur nemenda við lögreglufræði en hlutfall kvenkyns lögreglumanna er bara 15% svo það eru margar konur að byrja í þessu námi og starfa sem lögreglumenn en líka að hætta, að sögn Finnborgar Salóme Steinþórsdóttur, nýdoktor og kennari í kynjafræði við Háskóla Íslands. Finnborg rannsakaði árið 2013 hvers vegna svona fáar konur haldast í starfinu.

Það er mikilvægt að þeir sem sinna löggæslu séu þverskurður af samfélaginu en það er líka mikilvægt að þeir sem vinna í dómskerfinu séu fjölbreyttur hópur af einstaklingum. Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, segir að það sé töluverður kynjahalli í dómarastéttinni og þá sérstaklega í Hæstarétti og Landsrétti. En af hverju skiptir kyn dómaranna máli? „Það skiptir máli sérstaklega í málaflokkum sem ég hef mest verið að vinna í sem eru kynferðisbrotin, vegna þess að maður sér það mjög vel að það er mismunandi reynsluheimur karla og kvenna,“ segir Kolbrún.
 

Í hlaðvarpinu Allskyns skoða Guðmundur Felixson og Hafdís Helga Helgadóttir allskyns störf, skoða hvers kyns þau eru og hvort kyn skipti þar einhverju máli. Hlustaðu á þátt vikunnar í spilaranum hér fyrir ofan. Hann er einnig aðgengilegur í öllum helstu hlaðvarpsveitum, í spilar RÚV og RÚV appinu. 

 

Tengdar fréttir

Kennarastéttin misst bæði stöðu og virðingu

Íþróttir

Förum ekki að stera upp alla kveníþróttamenn

Tónlist

Karlrapparar á Íslandi vaxa eins og lúpína