Kvóti á Laugaveg og Hverfisgötu til skoðunar

18.08.2016 - 09:18
Mynd: RÚV / RÚV
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir það til skoðunar að setja hótelkvóta meðfram Laugavegi og Hverfisgötu. Hann segir beinlínis erfitt að bregðast nógu hratt við örum vexti ferðamanna. Dagur segir koma til greina að setja frekari takmarkanir á leigu íbúðarhúsnæðis gegnum Airbnb en vill gera greinarmun á því þegar fólk er að leigja út húsnæðið til að komast sjálft til sólarlanda og þegar verið er að kaupa íbúð eftir íbúð til að stunda neðanjarðar-gististarfsemi.

Þetta kom fram í viðtali við Dag á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun þar sem hann ræddi meðal annars þau verkefni sem borgin stendur frammi fyrir vegna mikillar fjölgunar ferðmanna.  

Hátt í 300 þúsund ferðamenn hafa komið í upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík það sem af er ári og met var sett í síðasta mánuði þegar 69 þúsund sóttu sér þjónustu þangað - þeir hafa ekki verið fleiri frá stofnun árið 1987.

Dagur segir erfitt að bregðast við þessu mikla vexti - ferlar borgarinnar við úthlutun lóða undir hótel taki mánuði og stundum ár en ef hóteluppbyggingu sé ekki hleypt af stað myndist þrýstingur frá ferðaþjónustunni á íbúðamarkaðinn og þá sérstaklega leigumarkaðinn. „Og það er annmarki þannig að við höfum sett hótelkvóta á Kvos og við höfum verið með til skoðunar að setja hótelkvóta meðfram Laugavegi og Hverfisgötu,“ segir Dagur sem telur þó að borginni hafi gengið ágætlega að beina fjárfestingu á þau svæði sem þurfi andlitslyftingu - eins og Hlemm og Suðurlandsbraut. „Og við Grensásveg hafa komið nokkrar fyrirspurnir og ég vona að þar komi hótel.“

Dagur ræddi einnig glímu borgarinnar við skammtímaleigu íbúða til ferðamanna í gegnum kerfi eins og Airbnb. Nokkur sveitarfélög úti á landi hafa reynt að bregðast við þessu - til að mynda hefur Vík gert samþykkt sem jafngildir banni við skammtímaleigu íbúða þar.

Nýleg rannsókn Íslandsbanka leiddi í ljós að einn af hverjum fimm ferðamönnum nýtti sér þetta úrræði og talið er að 211 þúsund ferðamenn dvalið í Airbnb-íbúðum hér á landi á síðasta ári.  Og þá kom fram á vef breska ríkisútvarpsins nýverið að erfiðara og erfiðara væri að leigja íbúðir til lengri tíma í borgum vegna þessarar þjónustu.

Dagur segir ekki hægt að útiloka frekari takmarkanir á þessu kerfi en vill þó gera skýran greinarmun á þeim sem leigja út sitt íbúðarhúsnæði til að komast sjálf til útlanda og svo hinum sem kaupa íbúð og eftir íbúð til að reka þær sem neðanjarðar-gististarfsemi.

Dagur segir að Ísland og Reykjavík séu ekki þau einu sem séu að fást við þennan vanda. „Þessi þróun er ný en hún er í stór í sniðum og hefur mikil áhrif. Þannig að ég hef átt samtöl hér heima við yfirmenn ferðamála í Berlín og Barcelona. Og við erum að fara hittast í byrjun nóvember tíu borgir sem eru að glíma við svipuð vandamál. Þar ætlum við að bera saman bækur okkur til að ná utan um þetta í sameiningu. Því þetta er ekkert ósvipað og loftslagsmál - þarna eru engin landamæri. Og við þurfum að horfast í augu við það að við erum stór ferðamannaborg og þurfum að leysa þetta eins og aðrir.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi