Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kvótakerfið ekki búið til svo nokkrir gætu orðið ríkir

23.11.2019 - 14:40
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að kvótakerfið hafi ekki verið búið til á sínum tíma til að gera nokkra einstaklinga ofurríka. Hann telur gríðarlega mikilvægt að nýtt auðlindaákvæði verði í stjórnarskránni. Þar verði skýrt að auðlindir náttúru landsins tilheyri íslensku þjóðinni.

Þetta er á meðal þess sem Sigurður Ingi ræddi í ræðu sinni á haustfundi miðstjórnar Framsóknar á Akureyri. 

Sigurður Ingi  segir að Framsóknarflokkurinn hafi komið að því á sínum tíma að setja á kvótakerfi í fiskveiðum. Engum hefði dottið til hugar að árið 2019 yrði staðan sú að fá fyrirtæki væru með stóran hluta kvótans. 

Sigurður segir að á árinu hafi nýtt auðlindaákvæði stjórnarskrár verið í samráðsgátt stjórnvalda. Það sé hluti af vinnu ríkisstjórnarinnar í umbótum á stjórnarskránni. „Ég tel gríðarlega mikilvægt að slíkt auðlindaákvæði sé í stjórnarskrá íslensku þjóðarinnar.“ Það dugi þó ekki eitt og sér. Sátt verði að ríkja um nýtingu auðlinda Íslands. 

Vann frumvarp um tímabundin yfirráð yfir kvóta

Hann rifjaði upp að þegar hann var sjávarútvegsráðherra á árunum 2014 til 2015 hefði hann lagt í mikla vinnu við gerð frumvarps þar sem lagt var til að sjávarútvegsfyrirtæki gætu gert samning um kvóta til ákveðins íma, 23 ára, sem undirstriki eign þjóðarinnar á auðlindinni en gefi sjávarútvegsfyrirtækjunum tækifæri til að hugsa til lengri tíma. Frumvarpið hafi ekki náð inn til þingsins vegna mikillar andstöðu samstarfsflokksins. Sigurður Ingi telur að grunnur að sátt um sjávarútveginn felist í þessu frumvarpi og því að lækka hámark kvótaþaks, bæði í heildaraflaheimildum og í einstökum tegundum, og vinna þannig að aukinni dreifingu kvóta. Hann telur að frumvarpið hefði haft mikil áhrif á samfélagið og stuðlað að meiri sátt og meira jafnvægi í samfélaginu.

Kvótakerfið ekki búið til svo nokkrir gætu orðið ríkir 

„Kvótakerfið var ekki búið til svo nokkrir einstaklingar gætu orðið ofurríkir,“ segir Sigurður Ingi í ræðunni. „Það var ekki búið til svo þeir fjármunir sem urðu til við aukna verðmætasköpun færu á flakk milli reikninga á aflandseyju.“

Kvótakerfið hafi verið búið til svo Íslendingar gætu allir notið hagsbóta af öflugum íslenskum sjávarútvegi. Umbætur í sjavarútvegi séu nauðsynlegar og tímabærar og Framsóknarflokkurinn ætli að beita sér fyrir þeim. 

„Það þarf ekki mikið innsæi til að átta sig á því að við erum sem þjóð ekki búin að jafna okkur eftir hrunið og þau miklu svik sem almenningur upplifði þegar heilt bankakerfi hrundi. Ofan í það komu Panama-skjölin og nú Samherjamálið,“ segir Sigurður Ingi. Þær raddir hljóðni nú líka í smá stund sem gagnrýni eftirlitsstofnanir fyrir að vera of stórar, flóknar og íþyngjandi. Markaðurinn þurfi ekki eftirlit, hann geti gert það sjálfur. „Frelsi er mikilvægt en án ábyrgðar er frelsið lítils virði.“

Hættið að fela peningana

Sigurður Ingi talaði einnig um jarðamál. Fjallað var um jarðakaup breska kaupsýslumannsins Jim Ratcliffe í Kveik nýverið. Þar kom fram að umsvif hans væru meiri en áður hefði verið talið og að hann ætti í raun hátt á annað prósent landsins.

Sigurður Ingi nefndi ekki Ratcliffe á nafn en fjallaði um sömu prósentueign á landi og sagði að ef 99 aðrir slíkir auðmenn gerðu slíkt hið sama væri landið selt. „Sættum við okkur að innan við hundrað einstaklingar geti átt allar jarðir á Ísland? Enginn sættir sig við í nafni viðskiptafrelsis að hægt sé að kaupa heilu dalina eða héruð. Þetta getur skaðað fullveldi landsins.“  

Dæmin sýni að heilu landsvæðunum sé lokað fyrir frjálsri för. „frjálsri för. Við viljum ekki sjá slíka auðlindasöfnun. Eignarhaldið er leynt og eignarhaldið er ógagnsætt.“ Taka verði á þessu í regluverkinu. 

Sigurður Ingi segir í ræðunni að reglulega berist fréttir af fólki sem velji að færa fjármuni í flóknum fléttum til aflandseyja hér og þar í heiminum. „Það er sorglegt til þess að hugsa að fólk og fyrirtæki sjái ekki sóma sinn í að deila kjörum með þjóðinni sinni og flytji peningana í skattaskjól. Ég held ég tali fyrir hönd mikils meirihluta þjóðarinnar þegar ég segi: Þessu verður að linna. Hættið að fela peningana. Takið þátt í að byggja betra samfélag.“

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV