Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kvikmynd um Panamaskjölin frumsýnd um helgina

Kvikmynd um Panamaskjölin frumsýnd um helgina

29.08.2019 - 04:03

Höfundar

Mossack Fonseca, lögmannsstofan alræmda, verður í forgrunni væntanlegrar kvikmyndar sem verður frumsýnd í næsta mánuði.

Fyrirtækið komst í heimsfréttirnar fyrir þremur árum þegar Panamaskjölin svonefndu voru birt. Þar gaf að líta nöfn fjölda valdamikilla og forríkra einstaklinga sem höfðu á einhvern hátt átt í viðskiptum við Mossack Fonseca. Þeirra á meðal voru fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra svo einhverjir séu nefndir.

Kvikmyndin ber heitið The Laundromat, eða þvottahúsið. Stór nöfn koma að gerð myndarinnar, leikstjórinn er Steven Soderbergh og með aðalhlutverk fara Meryl Streep, Gary Oldman og Antonio Banderas. Kvikmyndin er byggð á bókinni Secrecy World: Inside the Panama Papers Investigation of Illicit Money Networks and the Global Elite eftir Jake Bernstein. Bókin var gefin út árið 2017 og þar er farið í saumana á hvernig Mossack Fonseca aðstoðaði forríka einstaklinga við að fela auð sinn og komast hjá skattgreiðslum.

Að sögn Rolling Stone verður kvikmyndin frumsýnd 1. september á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. Hún verður svo frumsýnd í kvikmyndahúsum síðar í mánuðinum, og 18. október fer hún á afþreyingaveituna Netflix.
 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Meryl Streep í mynd um Panamaskjölin

Innlent

Kyrrsetning vegna gruns um skattalagabrot