Kvikmynd um líkfundarmálið helst ekki á floti

Mynd: Sena / Sena

Kvikmynd um líkfundarmálið helst ekki á floti

18.10.2018 - 11:22

Höfundar

Kvikmynd Ara Alexander Ergis Magnússonar Undir halastjörnu sækir innblástur í líkfundarmálið svokallaða sem vakti mikla athygli árið 2004. Myndin fer vel af stað segir gagnrýnandi Lestarinnar á Rás 1 en líður fyrir veikt handrit og slaka persónusköpun.

Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Undir halastjörnu er fyrsta leikna mynd leikstjórans Ara Alexander Ergis Magnússonar sem áður hefur fengist við heimildamyndagerð. Myndin er byggð á hinu fræga líkfundarmáli, sönnum atburðum frá árinu 2004 þegar illa farið lík fannst í höfninni í Neskaupstað fyrir tilviljun þegar kafari var að skoða skemmdir á bryggjunni eftir storm.

Af tilliti við aðstandendur er þjóðerni fórnarlambsins breytt úr litáísku í eistneskt. Undir halastjörnu hefst árið 1991 í Eistlandi þar sem æskuvinirnir Mihkel og Igor fylgjast með falli Sovétríkjanna og aðkomu íslenskra stjórnvalda að sjálfstæðisyfirlýsingu Eystrasaltsríkjanna. Þar með er búið að koma á tengingu á milli Íslands og Eistlands innan söguheims myndarinnar og þeirra örlaga sem bíða vinanna á Íslandi á fullorðinsárum. Igor blekkir vin sinn til þess að smygla amfetamíni innvortis til Íslands en þegar þangað kemur og eiturlyfin skila sér ekki í gegnum meltingarveg Mihkel hefst atburðarás sem endar með líkfundinum í höfninni.

Úir og grúir af siðblindum hrottum

Þetta er önnur spennumyndin sem kemur út á Íslandi í ár sem fjallar um burðardýr sem veikist en kvikmyndin Vargur sem var frumsýnd í sumar fjallar um unga konu frá Póllandi sem kemur til Íslands með eiturlyf innvortis og veikist svo. Í báðum tilvikum fellur það í hlut taugaveiklaðra smákrimma að reyna að fá burðardýrið til þess að skila af sér og svo fást við dramað þegar það gengur ekki eftir. Í bæði Vargi og Undir halastjörnu úir og grúir af siðblindum hrottum sem svífast einskis til þess að fá sinn gróðahlut og í báðum myndum eru burðarkarakterar lægra settir smákrimmar sem verða einhvers konar móralskir vegvísar þegar það fellur í þeirra hlut að fást við deyjandi burðardýr. Mér finnst áhugavert að í báðum myndum er gert nokkuð mikið úr sambandi þeirra við börn sín og mæður, í þeirri viðleitni að gera þá manneskjulegri. Bóbó, leikinn af Tómasi Lemarquis, er í þessu hlutverki í Undir halastjörnu. Bóbó er undir hælnum á Jóhanni, sem leikinn er af Atla Rafni Sigurðssyni, Ingvar E. Sigurðsson leikur svo yfirmann hans og tengdaföður, auðmann sem er með tengingar við ógeðfelldan rússneskan auðkýfing.

Úr kvikmyndinni Undir halastjörnu
 Mynd: RÚV
Ingvar E. Sigurðsson og Atli Rafn Sigurðsson í hlutverkum sínum.

Þungamiðja myndarinnar er eftir sem áður samband Mihkel og Igors. Pääru Oja fer með hlutverk Mihkels og er bæði sannfærandi og sympatískur í hlutverki sínu. Undir halastjörnu byrjar mjög vel og ég var hrifin af þeim hluta myndarinnar sem gerist í Eistlandi, áhorfandinn nær tengingu við bakgrunn Mihkels, hann á kærustu og framtíð, en er illa svikinn af besta vini sínum Igor. Það kemur fram í myndinni að Igor er hálfrússneskur og í þokkabót er rússneskur faðir hans bæði ofbeldisfullur og grimmur. Þannig svífur andi rússneska stórveldisins yfir en það er eftir sem áður laus þráður í heimi myndarinnar sem hefði verið hægt að vinna betur með ef persóna Igors hefði fengið meira vægi og sterkari rödd.  

Missir taktinn á Íslandi

Þegar sögusvið myndarinnar færist yfir til Íslands fannst mér eins og myndin missti taktinn og var höktandi til loka. Það er vitaskuld mikil kúnst að halda takti í góðri spennumynd og þá sérstaklega þegar áhorfendur vita hvernig myndin endar. Persónusköpunin er býsna veik í Undir halastjörnu, það er helst að ég hafi náð að tengja við örvæntingu Mihkels, allar persónurnar eru annars tvívíðir krimmar. Ég hefði til að mynda viljað kynnast Igor betur. Í meðförum Tómasar verður Bóbó að nokkuð kómískum karakter, enda var oft hlegið í salnum að og með Bóbó. Það er ekkert að tragikómedíum og margar af þeim bestu myndum sem ég hef séð, sem fjalla um örvæntingarfulla glæpamenn sem eru að reyna að hylma yfir gjörðir sínar, innihalda kolsvartan húmor. Fargo, mynd Cohen bræðra, kemur fyrst upp í hugann. En ég var ekki alltaf alveg viss hvort eitthvað ætti að vera fyndið eða ekki í Undir halastjörnu og það getur verið að ég hafi flissað þegar ég átti ekki að flissa.

Mynd með færslu
 Mynd: Sena
Tómas Lemarquis fer með hlutverk Bóbó í Undir halastjörnu.

Undir halastjörnu líður fyrir veikt handrit en mörg af samtölunum eru stirðbusaleg og myndatakan og klippingin á köflum þess eðlis að það truflaði upplifun mína af sögunni. Hljóðið var líka óþægilega áþreifanlegt á köflum en hljóð hefur löngum verið stórt vandamál í íslenskri kvikmyndagerð. Þó svo að forsendur myndarinnar, sagan af líkinu sem finnst og enginn saknar, jafnvel fall Sovétríkjanna og samband Íslands og Eystrasaltsríkjanna, séu áhugaverðar og grípandi þá þarf meira til að gera góða spennumynd með trúverðugum karakterum. Undir halastjörnu var því nokkuð endaslepp bíóupplifun að mínu mati. Búningahönnun, sviðsmynd og tónlistin í myndinni eru til fyrirmyndar og sama má segja um förðun og gervi í myndinni, en það var allt mjög vel gert. Það er synd með myndir eins og Undir halastjörnu og Varg sem mikið er lagt í, að ekki sé meira gert til þess að þróa og vinna áfram með betri persónusköpun, sérstaklega kvenpersónurnar sem í báðum myndum voru afskaplega takmarkaðar og tvívíðar, og leggja meiri áherslu á vel skrifuð samtöl og frásagnarfléttur. Annars situr lítið eftir er ég hrædd um.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Þetta voru bræðrasvik“

Mynd með færslu
Kvikmyndir

Frelsissviptingar kveikjan að nýrri mynd