Kvikmynd sem rís og hnígur líkt og togari í ólgusjó

Mynd: Nimbus / Nimbus

Kvikmynd sem rís og hnígur líkt og togari í ólgusjó

22.11.2019 - 10:39

Höfundar

„Það er reisn og fegurð yfir öllum manneskjunum í myndinni, sjónarhornið er ekki hlutlaust, þrátt fyrir að leikstjórinn leitist ef til vill við að rannsaka mannlegt eðli líkt og mannfræðingur eða sálgreinandi,“ segir Marta Sigríður Pétursdóttir um kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Bermál.

Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Ég hugsa að í hjarta hvers listamanns leynist þrá um að ná að skapa listaverk sem nær að fanga lífið í heild sinni, sem var einmitt ásetningur leikstjórans Rúnars Rúnarsonar við undirbúning og gerð sinnar nýjustu kvikmyndar Bergmáls sem var frumsýnd í vikunni. Rúnar hefur notið mikillar velgengni sem kvikmyndagerðarmaður á undanförnum árum en bæði Þrestir og Eldfjall voru sýndar á kvikmyndahátíðum út um allan heim og nutu mikillar hylli gagnrýnenda og áhorfenda og var Rúnar var einnig tilnefndur til Óskarsverðlauna í flokki bestu erlendu stuttmynda fyrir stuttmynd sína Síðasta bæinn. Það má því draga þá ályktun að Rúnar sé kominn á þann stað eða stall sem listamaður að hann geti nú fengið að gera það sem hann vill. Bergmál er óhefðbundin kvikmynd sem brýtur upp formið en í myndinni er enginn aðalleikari og engin persóna kemur fyrir oftar en í einni senu. Eins og kom fram í ræðu framleiðanda myndarinnar, Lilju Snorradóttur, á undan viðhafnarsýningu myndarinnar á þriðjudaginn, þá vildi Rúnar gera kvikmynd sem væri eins konar samblanda af heimildarmynd og leikinni mynd. Bergmál samanstendur af 58 senum sem spanna 79 mínútur. Hver sena í myndinni er eins konar örsaga en það má líkja Bergmáli við mósaíkverk, þegar öll brotin hafa komið saman situr eftir heildstæð mynd, eða að minnsta kosti tilfinning um einhvers konar heild. Bergmál er í ætt við heimildarmyndina Life in a day frá árinu 2011 sem er aðgengileg á YouTube og samanstendur af myndbrotum sem send voru inn frá fólki alls staðar að úr heiminum og fönguðu augnablik í lífi fólks 24. júlí 2010.

Þessi blöndun á heimildarforminu við leiknar kvikmyndir hefur verið áberandi stefna í kvikmyndagerð á undanförnum árum. Þannig má sjá beina endurgerð í Bergmáli á atburðum sem áttu sér stað í íslensku samfélagi á síðasta ári. Í myndinni kemur einnig fram fjöldi óþekktra leikara sem gefur myndinni enn frekar yfirbragð heimildarmyndar, eða vekur upp þau hughrif að þetta sé einfaldlega fólk að leika sjálft sig í skálduðum aðstæðum í daglegu lífi.

Bergmál er hins vegar óneitanlega listrænt kvikmyndaverk þar sem tekst með töfrum listformsins að segja stórar sögur og tjá tilfinningar og vekja hughrif, sem er mikil kúnst þegar unnið er með svo knappt form og án, að því er virðist, söguþráðar og aðalleikara, sem eru jú yfirleitt burðarstykkin í flestum kvikmyndum. Rúnari tekst ætlunarverk sitt nokkuð vel því Bergmál er heildstætt kvikmyndaverk sem rís og hnígur líkt og togari í ólgusjó og nær fyllingu sinni í lokin.

Bergmál nær auðvitað ekki að vera lífið sjálft, höfundurinn er meðvitaður um takmarkanir formsins, enda vísar titillinn til þess að þetta sé bergmál af íslenskum samtíma. Rúnar segir sjálfur að Bergmál sé hugsað sem eins konar bergmál af póstmódernísku samfélagi samtímans í viðtali á vef Nordisk Film & TV Fond.

Kvikmyndatónlistina semur Kjartan Sveinsson, fyrrverandi liðsmaður Sigur Rósar, en hann hefur samið tónlistina við flestar ef ekki allar kvikmyndir Rúnars. Mér varð einmitt hugsað til verks Ragnars Kjartanssonar sem ég sá í Borgarleikhúsinu fyrir nokkrum árum. Kjartan samdi tónlistina einnig fyrir það verk, en hann hefur verið hirðtónskáld Ragnars til fjölda ára. Ragnari bregður svo einmitt fyrir í einni senu í Bergmáli þannig að hér birtist líka þéttofið rótarkerfi íslenskra listamanna. Verkið sem ég sá í Borgarleikhúsinu bar titilinn „Kraftbirtingarhljómur guðdómsins” sem er vitaskuld tilvitnun í Heimsljós eftir Halldór Laxness og samanstóð af gamaldags máluðum sviðsmyndum af íslensku landslagi sem voru í aðalhlutverki undir leik sinfóníuhljómsveitar og kórs sem flutti tónverk Kjartans. Sem sagt hádramatísk leiksýning án leikara. Opnunar og lokasenur Bergmáls kalla fram svipuð hughrif. Ég ætla ekki að fara út í djúpar vangaveltur um módernisma, póstmódernisma og póstpóstmódernisma hér, en Bergmál býður svo sannarlega upp á það samtal.

Snjallsímanotkun og þörf okkar til þess að tengjast öðrum er stef sem er gegnumgangandi í myndinni. Við erum enn fremur öll teymd áfram af þránni til þess að sigrast á dauðanum, við erum kannski sífellt að reyna að hafa hemil á tímanum með því að fanga hvert augnablik á litlu skjáina okkar, en árangurs vitaskuld, við erum öll á sömu vegferðinni, í áttina að dauðanum.

Þrátt fyrir nærveru dauðans er dýrmætu lífinu fagnað í Bergmáli, enda gerist myndin yfir stórhátíðirnar og er að mörgu leyti falleg hugvekja sem vermir hjartastöðina á dimmasta tíma ársins. Einnig leitast Bergmál við að skilja hvað gerir samfélag að samfélagi, eða einfaldlega hvað þetta fyrirbæri, samfélag, sé eiginlega. Það er ekki auðvelt verk að ætla að ná yfir og bergmála heilt samfélag og ég saknaði til dæmis að sjá aðstæður þar sem fötlun kemur við sögu í myndinni. Auðvitað eru margar fatlanir ekki sýnilegar en margar af þeim fötlunum sem eru einmitt sýnilegar eru of oft faldar í okkar samfélagi og menningarafurðum. Þó er vissulega mjög mörgum jaðarsettum hópum stillt upp við hlið hinna sem eru nær miðjunni og meira velmegandi í Bergmáli.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rúnar Rúnarsson leikstjóri.

Rúnar er augljóslega næmur á hið sálræna og sammannlega og honum tekst að láta þessa óhefðbundnu kvikmynd ganga upp, brotin raðast upp smátt og smátt og hinu hádramatíska og óbærilega er oftar en ekki stillt upp við hlið hins hversdagslega og smáa. Þar fyrir utan eru margar senur einstaklega kómískar sem myndar jafnvægi við hið harmræna. Kvikmyndatakan gegnir mjög mikilvægu hlutverki í þessu samhengi en Sophia Olsson er á bak við myndavélina en hún tók upp Þresti og stuttmyndina Smáfugla eftir Rúnar. Einnig tók hún upp hina áhrifamiklu kvikmynd Sami Blood sem var tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2017. Það er reisn og fegurð yfir öllum manneskjunum í myndinni, sjónarhornið er ekki hlutlaust, þrátt fyrir að leikstjórinn leitist ef til vill við að rannsaka mannlegt eðli líkt og mannfræðingur eða sálgreinandi – hlutlaust sjónarhorn er ekki til – en hér er það er auðmjúkt og skilningsríkt þegar þörf krefur, athugult en um leið listrænt, það eru margar sterkar myndir í Bergmáli sem sitja lengi eftir í minninu.

Bergmál tekur einnig á pólitískum ágreiningsefnum sem pólarísera bæði samfélagið en líka fjölskyldurnar. Myndin undirstrikar mikilvægi og gildi starfsstéttanna, sem eru grunnstoðir samfélagsins og halda því gangandi, einnig margbreytileikans og fjölmenningarinnar sem er órjúfanlegur hluti af íslensku nútímasamfélagi.

Björgunarsveitirnar koma fyrir í Bergmáli sem segja má að séu ein skýrasta birtingarmynd samhjálparinnar og mikilvægi þeirra sem bjarga lífum, launalaust í sjálfboðaliðastarfi. Þetta minnti mig einnig á kvikmynd rússneska leikstjórans Andrey Zvyagintsev, Loveless, frá árinu 2017, þar sem æðruleysi og óeigingirni björgunarsveitafólks er stillt upp við hlið foreldra horfins barns sem verða að táknmyndum einstaklings- og neysluhyggjunnar sem einkennir samfélög síðkapítalismans.

Það má segja að Bergmál snerti á þessari tilvistarkreppu og margtuggnu klisju um að tæknin, sem hefur gert okkur kleift að vera tengdari og í meiri og betri samskiptum hvort við annað en nokkurn tíman áður, hindrar okkur í því að mynda tengingar og skilja hvort annað, það nægir að benda á hugtakið ‚bergmálsklefa‘ samfélagsmiðlanna. Ef til vill er leikstjórinn meðvitaður um að þrátt fyrir allt þá er hann líka fastur í sínum bergmálsklefa sem hann er að reyna að komast út úr, en kannski má hugsa sem svo að samfélagið í heild sinni sé þá bara annar bergmálsklefi. Við sleppum aldrei út úr þessum bergmálsklefum, fyrir mörgum þá er ég að tala inn í einn slíkan núna.

Það er samt svo miklu meira sem sameinar en aðgreinir okkur manneskjurnar og skín sú vitneskja í gegnum allar senurnar í Bergmáli – og er það ekki einmitt boðskapur hátíðarinnar sem nú er að ganga í garð? Stærsti harmurinn, í lífinu og í Bergmáli, felst ef til vill í því hversu oft okkur yfirsést sú einfalda staðreynd. Bæði sem einstaklingum og sem samfélagi.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Vissi ekki að þú gætir verið fyndinn, Rúnar"