Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kvika að safnast saman undir Öræfajökli

24.10.2018 - 22:25
Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Magnússon
Mælingar á Öræfajökli gefa til kynna að kvika sé að safnast saman undir jöklinum. Hert hefur á jarðskjálftum í Öræfajökli á þessu ári og hann hefur þanist út.

Þetta kom fram á íbúafundi sem almannavarnarnefnd sveitarfélagsins Hornafjarðar hélt í Hofgarði í Öræfum í kvöld. Fram kom í máli Kristínar Jónsdóttur, hópstjóra náttúruvárvöktunnar Veðurstofunnar, að fleiri jarðskjálftar stærri en tveir hafi mælst í Öræfajökli en í fyrra, og að orkuupplausn í sjálftunum sé meiri en áður. Kvikuþrýstingur byggist upp í eldfjallinu og ekki hafi dregið úr þrýstingi eða skjálftavirkni. Þvert á móti hafi jarðskjálftum fjölgað.

Mælingar sýna greinilega aflögun á eldstöðinni. Kvika sé að safnast saman rétt ofan við fimm kílómetra dýpi. Í nóvember 2017 sýndu myndir af Öræfajökli að sigketill í jöklinum hefði dýpkað mikið. Mælingar sýndu þá aukna rafleiðni í Kvíá. Kristín sagði á fundinum í kvöld að sigketillinn hefði grynnkað á þessu ári og að efnamælingar sýni minni jarðhita í Kvíá en áður.

Í samtali við fréttastofu í kvöld sagði Kristín að allar mælingar sýni að Öræfajökull sé að búa sig undir eldgos. Ekki væri þó hægt að segja nánar til um hversu mikla kviku þurfi til að þrýstingur verði nægilegur til að úr verði gos. Fylgjast þurfi því náið með framvindunni í jöklinum.

 

larao's picture
Lára Ómarsdóttir
sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir