Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Kvíði og sprungnir veggir í Grindavík

Guðbjörg Hermannsdóttir, Grindvíkingur. - Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Mörgum Grindvíkingum var brugðið eftir snarpan jarðskjálfta skammt frá bænum í morgun. Skjálftinn fannst greinilega um allt suðvesturhornið, en olli litlu eignatjóni.

Skjálftinn var 5,2 og varð um fimm kílómetrum norðaustur af Grindavík. Mörg hundruð eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið, en ekkert virðist benda til þess að skjálftarnir tengist eldsumbrotum.

Fannar Jónasson bæjarstjóri segir að Grindvíkingar séu orðnir ýmsu vanir í þessum efnum, en undanfarið hafi hægt verulega á skjálftunum. „Við höfum ekki fundið fyrir þeim þótt þeir hafi mælst, þeim hefur fækkað, landrisið hefur minnkað svo það var komin ákveðin ró yfir samfélagið og okkur var farið að líða betur. Þetta minnti okkur á það að þetta er ekki endilega búið."

Pálmar Guðmundsson kveðst hafa fundið greinilega fyrir skjálftanum. „Þetta var stærsti skjálfti sem ég hef fundið fyrir, ég held að það hafi komið sprungur efst í veggnum, en ekkert svona alvarlegt. Það fer náttúrulega allt á hreyfingu."

Sótti bílinn í bílskúrinn

Ágústu Óskarsdóttur var mjög brugðið. „Mér dauðbrá, ég held að ég hafi í fyrsta skiptið verið svona virkilega brugðið." Það fyrsta sem hún gerði var að hringja í móður sína. „Svo fór ég og tók bílinn úr bílskúrnum og fyllti hann af bensíni, ég vildi ekki festast með hann inni í bílskúr ef ég þyrfti að komast burt."

Guðbjörg Hermannsdóttir fór ekki varhluta af skjálftanum. Næstum hver einasti veggur á heimilinu er sprunginn eftir kippina í morgun. „Ég er komin með þetta listaverk á vegginn, ég kalla það Marmara," segir hún og hlær. Hún kveðst ekki hrædd við skjálftana. 

Tvöfalt högg hjá Bláa lóninu

Stærsta ferðaþjónustufyrirtæki Grindavíkur, Bláa lónið, varð fyrir tvöföldu höggi í morgun. Fyrst tilkynnti Donald Trump um ferðabann milli BAndaríkjanna og Evrópu, og siðan kom annað högg, jarðskjálfti upp á 5,2, einum kílómetra frá lóninu. 

„Lengi getur vont versnað, ég segi nú ekki annað," segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins. „Vissulega er það mikið áfall að stjórnvöld í Bandaríkjunum skuli stíga fram með þeim hætti sem raun ber vitni. Það eina jákvæða sem maður getur horft til er að þetta er tímabundið ástand og gengur vonandi fljótt yfir, og ég hef þá trú að þetta verði gengið yfir á vormánuðum."

Lítið skemmdist í Bláa lóninu, en Grímur hefur ekki fengið tækifæri til að skoða ummerkin sjálfur. „Það er nú þannig ástandið að við fjölskyldan komum frá Austurríki af skíðum 1. mars og í samræmi við fyrirmæli sóttvarnaryfirvalda höfum við verið í sóttkví, og henni lýkur nú um helgina."