Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Kvennalistinn var ævintýri lífs míns“

19.06.2015 - 14:14
Mynd: Magnus Fröderberg / Wikimedia Commons
100 ár, heil öld er liðin frá því að 12 þúsund konur fertugar og eldri og rúmlega tvö þúsund eignalausir vinnumenn, fengu kosningarétt til Alþingis. Rétt sem bæði karlar og konur höfðu barist fyrir um áratuga skeið. Karlarnir innan þings og konurnar utan þess eins og gefur að skilja.

Óttuðust þetta gönuhlaup

Til þess að konur gætu fengið kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis þurfti stjórnarskrárbreytingu. Margir þingmenn voru hræddir við þetta „gönuhlaup“, bjuggust við að Alþingishúsið mundi fyllast af kvenfólki.

„Fyrirhafnarlaust af okkar hálfu“

Barátta kvenna fyrir stjórnarfarslegum réttindum hófst af fullum þunga með stofnun hins íslenska kvenfélags árið 1894. Fyrsta verkefni þess var að gangast fyrir undirskriftasöfnun til Alþingis þar sem skorað var á þingið að samþykkja pólitísk réttindi konum til handa. Rúmlega 2000 skrifuðu undir. Árið 1907 fór af stað önnur söfnun, samvinnuverkefni Kvenréttindafélags Íslands og Hins íslenska kvenfélags og þá söfnuðust rúmlega 11 þúsund. Stundum var það gefið í skyn í fjölmiðlum að konur hefðu ekki barist fyrir þessum rétti heldur fengið hann upp í hendurnar fyrirhafnarlaust og síðan haft litla rænu á að nýta hann. Árið 1902 sagði í Kvennablaðinu um kosningarétt kvenna til sveitarstjórna sem fékkst að hluta árið 1882. „Víða erlendis hafa konurnar árum saman krafist þessa réttar, en ekki fengið. En við höfum fengið hann hér um bil fyrirhafnarlaust af vorri hálfu. Það eru feður vorir og bræður, sem rétta okkur þennan rétt upp í hendurnar, nærri því án þess vér biðjum um hann."

Íslenskar konur börðust

Kosningaþátttaka var vissulega lítil fyrst um sinn. Auður Styrkársdóttir, stjórnmálafræðingur og forstöðukona Kvennasögusafns Íslands segir þó ljóst að konur hafi barist. Þó ekki hafi allar þær sem höfðu áhuga á málinu átt þess kost að standa í eldlínunni eða rita blaðagreinar. Undirskriftirnar hafi því verið afar þýðingarmiklar. „Bara það að setja nafnið sitt á svona undirskriftalista með kröfu til Alþingis það var svolítið stór aðgerð í hugum flestra. Þá eru þessar konur að gefa það til kynna, hér stend ég og krefst míns réttar og við sjáum það á fjölda þessara undirskriftalista að þetta er sannkölluð fjöldahreyfing,“ segir Auður Styrkársdóttir, stjórnmálafræðingur og forstöðukona Kvennasögusafns Íslands.

Höfðu áhyggjur af ferðalögum kvenna

Sumum körlum fannst stjórnmálin vera skítverk sem hlífa bæri konum við. Aðrir höfðu áhyggjur af því hvernig stjórnmálakonur ættu að ferðast um sveitir í vondum veðrum og enn aðrir óttuðust að heimili og börn yrðu vanrækt. Þeir voru líka til sem sögðu það beinlínis fáránlegt að konur hefðu ekki sama rétt og konur og tóku heilshugar undir kröfur þeirra.

„Snoppungur,“ sagði Bríet

Árið 1911 var samþykkt frumvarp á Alþingi um að konur yfir fertugu og vinnumenn fengju kosningarétt með 16 atkvæðum gegn fimm og þann 19. júní árið 1915 bárust þær fregnir að konungur hefði samþykkt lögin. Samkvæmt heimatilbúnu ákvæði átti kosningaréttaraldur að lækka um eitt ár á ári fram til ársins 1931 þegar réttur karla og kvenna yrði jafn. Snoppungur sagði Bríet Bjarnhéðinsdóttir um að kvenþjóðin fengi það framan í sig með stjórnarskrárlögum samþykktum af Alþingi, að fyrst við 40 ára aldur næðu konur þeim þroska, sem 25 ára karlmenn hafi náð. Henni fannst sem Alþingi ræki þeim löðrung. Í ákvæðinu birtist ótti karla um að konur myndu í krafti nýfengins kosningarétts og kjörgengis flykkjast á þing og kollsteypa stjórnmálunum í þeirri mynd sem þeir þekktu þau. Sambandslagasamningurinn við Dani sem gerður var árið 1920 varð til þess að konur og karlar urðu jöfn fyrir kosningalögum rúmum áratug fyrr en ella.

Konur tóku skyldunum fagnandi

Þrátt fyrir að Bríeti sviði snoppungurinn var haldið var upp á tímamótin þann 7. júlí 1915, sama dag og Alþingi var sett. Austurvöllur var allur skreyttur nýja fánanum íslenska, konur gengu fylktu liði frá Barnaskólagarðinum og inn á Austurvöll. Þaðan gekk sendinefnd með Ingibjörgu H. Bjarnason í broddi fylkingar inn í þinghúsið. Hún las ávarp til þingsins og lýsti því yfir að konur tækju skyldunum sem auknum réttindum fylgdu fagnandi.

„Vér vitum og skiljum að kosningarréttur til Alþingis og kjörgengis er lykillinn að löggjafarvaldi landsins, sem á að fjalla um alla hagsmuni þjóðarinnar, jafnt karla sem kvenna. Vér trúum því að fósturjörðin - stóra heimilið vor allra - þarfnist starfskrafta alls heimilisfólksins og vér trúum því, að vér eigum skyldum að gegna og störf að rækja í löggjöf lands og þjóðar eins og á einkaheimilum. Vér vonum einlæglega að hin nýja samvinna vor með bræðrum vorum á komandi tímum í landsmálum verði þjóðinni til heilla.“

 

Þingheimur hrópaði ferfalt húrra fyrir konum. Þegar nefndin kom út úr þinghúsinu söng söngflokkur kvenna kvæðið Kvennaslagur eftir Guðmund Magnússon. 

Brautryðjendur verða fyrir hnjaski

„Fyrstu konurnar, brautryðjendurnir verða auðvitað fyrir ýmsu hnjaski, aðeins vegna þess að þær eru konur en slíkt má ekki setja fyrir sig. þegar konum fjölgar á Alþingi Íslendinga hverfur það að ráðist sé á þær sérstaklega af því að þær eru konur.“

 

Þetta skrifaði Ingibjörg H. Bjarnason, fyrsta þingkona Íslendinga í Lögréttu árið 1930. Hún var þingkona kvennalista kvenfélagana og átti stóran þátt í því að Landspítalinn var reistur, konur stofnuðu sérstakan Landspítalasjóð í tilefni þess að þær fengu kosningarétt, stóðu að fjáröflunarsamkomum og lögðu til helming þess fjár sem þurfti til að reisa spítalann, hinn helmingurinn kom úr ríkissjóði.

Ein til tvær á þingi í hálfa öld

Tveir áratugir liðu. Fram til ársins 1949 var stundum ein kona á þingi, stundum engin. Eftir 1949 voru þær tvær og árið 1971 urðu þær þrjár, fimm prósent þingmanna og þótti mörgum það mikið. Það var í raun ekki fyrr en með framboði annars kvennalista árið 1983 sem hlutfallið breyttist. Konur voru þriðjungur frambjóðenda í kosningunum 1983 og níu konur náði kjöri, fjöldi kvenna á þingi þrefaldaðist. Nú eru konur tæplega 40% þingmanna.

Brautin enn ótroðin þegar nafna settist á þing

Nafna fyrstu þingkonunnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, kom inn í borgarstjórn 1982 fyrir kvennaframboðið. Hún bauð sig svo fram til Alþingis fyrir kvennalistann árið 1991, náði kjöri og sat á þingi til ársins 1994. Síðar varð hún borgarstjóri, formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra og nú er hún framkvæmdastjóri UN Women í Evrópu. Þrátt fyrir að stjórnmálaferill hennar hæfist þegar sex áratugir voru liðnir frá því fyrsta konan tók sæti á Alþingi var brautin enn að miklu leyti ótroðin. „Fyrstu árin mín í stjórnmálum inni í borgarstjórn Reykjavíkur voru mér að mörgu leyti alveg gríðarlega erfið. Ég var ekki nema 28 ára gömul þegar ég byrja þar og kem inn frá kvennaframboði. Davíð Oddsson er borgarstjóri og alltumlykjandi þar. Allsráðandi ef maður getur sagt sem svo. Mjög mikið af karlmönnum sem stýrðu bæði í pólitíkinni og í stjórnkerfinu og mér fannst þetta nánast eins og ókleifur múr til að byrja með. Ég þurfti að hafa mikið fyrir því að styrkja sjálfa mig í þessu hlutverki en það er nú eins og þar stendur það sem ekki drepur mann styrkir mann þannig að ég held líka að þessi ár og þessi slagur minni fyrir mínum rétti, minni tilveru og mínum pólitísku hugsjónum á þessum fyrstu árum án þess að ég væri með bakland í einhverjum öflugum flokki hafi hjálpað mér mjög mikið og kannski gert mig að þeim stjórnmálamanni sem ég síðar varð,“ segir hún. 

Kvennalisti nauðsyn í upphafi

Ingibjörg segir kvennaframboðið hafa komið inn í umhverfi sem var fastmótað af körlum fyrir karla. Karlamenningin hafi verið allsráðandi. Auður Styrkársdóttir segir að konur hafi í byrjun 20. aldar þurft að stofna kvennalista þar sem þær hafi ekki komist á lista hjá hefðbundnum flokkum. „Þær vildu ekkert endilega stofna sérstakan kvennalista. Þeim voru bara ekki boðin nein örugg sæti á listum karlmannanna sem fyrir voru og sátu áfram að hinu pólitíska valdi þó konur hefðu fengið kosningarétt.“

Hefði ekki viljað fara aðra leið

Þegar síðari kvennalistar fóru að láta til sín taka á áttunda og níunda áratug síðustu aldar voru fordæmi fyrir því að konur næðu kjöri fyrir aðra flokka. Ingibjörg Sólrún segist þó ekki hefðu viljað sleppa kvennalistaframboðinu. Jafnvel þó ástandið hefði verið hliðhollara konum í pólitíkinni. „Þetta er sko mesta ævintýri lífs míns. Ég hef aldrei upplifað neitt í pólitík í líkingu við þetta að taka þátt í að búa til kvennaframboð og fylgja þessum flokki fyrstu skrefin. Þetta var gríðarlega mikið ævintýri sem ég hef búið að alla ævi þannig ég hefði sannarlega ekki viljað fara hina leiðina. Þetta var svo mikil nýsköpun, það var svo mikið frelsi í því fólgið að renna ekki eftir einhverri slóð sem var búið að móta fyrirfram af einhverjum körlum fyrir árum og áratugum síðan,“ segir hún.

 

Reynsluheimur kvenna var hlægilegur

Ingibjörg segir kvennalistann hafa talað fyrir byltingarkenndum hugmyndum í stjórnmálum. Hlegið hafi verið að kvennalistakonum þegar þær ræddu hugtök á borð við reynsluheim kvenna og menningu kvenna og sögðu að þar væri margt jákvætt sem samfélagið færi á mis við. Hún segir samband kvennalistakvenna við konur innan annarra flokka hafa verið sérstakt fyrst um sinn. Sumar hafi viljað vera partur af ævintýrinu en tryggð þeirra við flokkana leyfði það ekki. Þær upplifðu þær því sem andstæðinga. „Svo lagaðist það nú og það voru mjög margar konur í flokkunum sem fóru að koma til okkar og segja: Þið verðið að halda áfram. Því við vorum alltaf með þessa umræðu um hvort við ættum að bjóða fram eða hætta. Þá sögðu þær þið verðið að halda áfram því á meðan þið eruð þarna mun staða okkar innan flokkanna verða betri og auðveldara fyrir okkur að berjast fyrir þessum málum innan flokkanna og auðveldara fyrir konur að komast áfram í flokkunum.“

„Kvennalistinn hjálpaði mér“

Valgerður Sverrisdóttir fyrsta konan til þess að verða iðnaðarráðherra, viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra hóf sinn þingferil árið 1987 þegar kvennlistinn hafði verið við lýði í eitt kjörtímabil. Hún segist eiga listanum margt að þakka. „Kvennalistinn hjálpaði mér, það er engin spurning og hafði áhrif á mig þannig að þegar hann er orðinn staðreynd og það eru komnar konur inn á þing fyrir kvennalistann þarna 1983. Ég var búin að vera á lista hjá Framsóknarflokknum á Norðulandi eystra frá 1974 einhvers staðar frekar neðarlega eða svona, sjötta eða sjöunda sæti. Svo á þessu kjörtímabili 1983-1987 þá eru konur innan Framsóknarflokksins, Landssamband Framsóknarkvenna orðið mjög öflugt. Mikil starfsemi, kraftur og samstaða um að það gangi ekki lengur, ætli Framsóknarflokkurinn að vera flokkur meðal flokka yrði hann að eiga konur á þingi eins og hinir flokkarnir. Hann var eini flokkurinn sem ekki átti konu í þingflokknum og það voru haldin námskeið um allt land á vegum Landssambands framsóknarkvenna til að efla konur í fundarsköpum,“ segir hún. 

Fyrsta konan í 44 ár

Árið 1987 urðu breytingar í kjördæminu og röðin var komin að Valgerði. Hún var fyrsta konan sem sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn í 44 ár. Þegar á þing kom mættu henni ýmsar áskoranir. „Ég upplifði alveg sérstaklega bara það að maður var svolítið einn í heiminum. Ég var eina konan í þingflokknum og auðvitað var enginn vondur við mann, það var ekki það en mig vantaði aðstoð og nú eru haldin námskeið fyrir nýja þingmenn því þetta er dálítið flókið starf.“ Hún er þó óviss um hvort þetta tengist kyni hennar sérstaklega.

Lýðræðisleg umræðuhefð listans

Ingibjörg Sólrún segir að kvennalistakonur hafi gert hlutina með sínum eigin hætti og innleitt ný vinnubrögð og lýðræðislega umræðuhefð. „Það er mikilvægt því lýðræði er ekki bara kosning. Lýðræði er ferli, samtal og hlustun og það praktíseruðum við mjög virkt í kvennalistanum og kvennaframboðinu og það tekur tími og það er ekki alltaf þolinmæði gagnvart því í stjórnmálunum en þetta samtal verður að eiga sér stað og við verðum að reyna að skilja sjónarmið hvers annars. Frumforsendan er þá að hlusta og það gerðum við.“

Bakslag þegar kemur að umræðuhefð

Hún segir að í dag séu málefni sem konum finnist skipta máli rædd í pólitískri umræðu. Hins vegar hafi þær breytingar á gildismati, vinnubrögðum og umræðuhefð sem kvennalistinn barðist fyrir ekki orðið. Umræðuhefðin sé orðin verri en fyrir tíu eða fimmtán árum og það fæli konur og ungt fólk frá pólitík. Valgerður tekur undir það að konur hafi að einhverju leyti aðra nálgun en karlar. „Mér finnst að, eins og þessi hugmynd sem kemur núna fram, að stofna til Kvennaþings að það væri hugsanlega leið til að koma á betri vinnubrögðum. Ég trúi því að það myndi gerast. Það eru önnur vinnubrögð viðhöfð innan kvennahreyfinga,“ segir hún. 

Jafnrétti árið 2000

Árið 1995 lýsti Valgerður því yfir að jafnrétti myndi að öllum líkindum nást fyrir aldamót. „Ég var orðin mjög bjartsýn á að við værum bara að ná jafnrétti, bæði í flokknum og almennt í stjórnmálunum og mér fannst þetta bara vera á blússandi ferð. Svo kannski vegna einhvers sofandaháttar fannst mér verða bakslag. Það segir manni það að þetta gerist ekki að sjálfu sér, það þarf stöðugt að vinna að jafnrétti til að það náist. Mér hefur alltaf fundist að það sé erfiðara að ná jafnrétti í hinu daglega lífi. Þetta með heimilin og álag kvenna á heimilum sem er bara til staðar enn en þetta er nú svona að batna með yngri kynslóðunum finnst mér og ungir menn í dag taka meiri ábyrgð.“

Bríet Bjarnhéðinsdóttir orðaði það hvernig deila bæri byrðum innan sem utan heimilisins í ávarpi sem hún flutti þegar haldið var upp á kosningaréttinn 1915. „Vér heilsum glaðar framtíðinni þar sem karlar og konur vinna í bróðerni saman að öllum landsmálum, bæði á heimilunum og á alþingi" sagði hún. 

Skrautfjaðrir á listum

Þegar Valgerður byrjaði í pólitík var litið á konur sem skrautfjaðrir á listunum. „Það var ekkert reiknað með því að konur væru í pólitík af einhverri alvöru. Lengi vel fannst mér á fundum, ég var líka virk innan Samvinnuhreyfingarinnar, það var bara ef kona talaði á fundi var það stórmerkilegt, það var fyrst og fremst horft á hana sem konu en ekki einn af fundarmönnum sem væri að leggja eitthvað til málanna. Svo er annað sem ég hef tekið eftir og það er að karlar vitna mikið hver í annan á fundum og lyfta hver öðrum þannig en þeir eiga óskaplega erfitt með að benda á eitthvað sem kona hefur sagt,“ segir hún og bendir á að enn sé til staðarfélagslegt karlaveldi í pólitík sem ekki sé búið að vinna á að fullu. 

Umönnunarbyrðin

Ingibjörg telur að það skili konum ákveðnum sjónarhorni að vera aldar upp sem stúlkur og hugsanlega verðandi mæður. Það sé gott sjónarhorn sem karlar mættu læra meira af því. Því miður sé konum þó líka refsað fyrir þetta, þær þurfi að greiða ákveðna umönnunarsekt, þær fái um 30% lægri laun en karlar að meðaltali, þegar horft sé yfir alla starfsævina. Þá séu störf á sviði umönnunar, sem konur gegna oft minna metin og það þurfi að lagfæra.

Konur þurfi að óhlýðnast

Nú er Ingibjörg Sólrún framkvæmdastjóri hjá UN- Women og sér hlutina í stóra samhengina. Hún segir að íslenskar konur hafi náð ótrúlega langt og er þeirrar skoðunar að leggja eigi mikla áherslu á jafnréttismál í utanríkisstefnu Íslands. „Þetta er þeim konum að þakka sem haf tekið sér fyrir hendur að þrasa um viðtekna hluti og berjast fyrir breytingum í samfélaginu. Það er eins og ég segi stundum, konur þurfa að óhlýðnast til að ná einhverju fram, það hefur aldrei gagnast þeim að vera hlýðnar og gera það sem þeim er sagt, hvorki sem einstaklingum né hópum. Þær þurfa að kunna að óhlýðnast, gera það sem þeim þykir rétt.“

Ýmsar stöður sem enn á eftir að kvenvæða

Enn hefur ýmsum áföngum ekki verið náð. Kona hefur ekki verið landbúnaðarráðherra eða sjávarútvetgsráðherra, seðlabankastjóri eða umboðsmaður Alþingis. Kona hefur einu sinni verið forsætisráðherra og tvær konur hafa verið fjármálaráðherra í tvö ár samtals. Rúmlega 30 karlar hafa hins vegar gegnt embættinu og þar af hafa karlar sem heita Magnús gegnt því í tíu ár. Ingibjörg segir að fordæmi skipti öllu máli. „Um leið og vígi falla er múrinn rofinn.“ Valgerður segir að hún hefði gjarnan viljað vera sjávarútvegsráðherra, hefði hún fengið tækifæri til þess. Ástæðan fyrir því að kona hefði ekki gegnt þessu embætti væri hugsanlega sú að flestar konur sem gegnt hafi ráðherraembættum væru frá höfuðborgarsvæðinu en sjávar- og landbúnaðarráðherrar kæmu oftast utan að landi. Landsbyggðarþingmenn hefðu frekar látið sig þessi mál varða.  

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV