Þar á sviðinu voru þrjár „ofurkonur“ eins og hún orðar það; þær Brie Larson, Gal Gadot og Sigourney Weaver, sem byrjuðu á því að kynna fyrsta kvenstjórnandann til þess að stjórna Akademíusinfóníunni meðan spiluð voru brot úr tónlistinni sem tilnefnd var, áður en nafn Hildar var dregið úr umslaginu. „Einhvern veginn var þessi kvennakraftur fullkomnaður á sviðinu.“
Hefðu getað ógnað Hildi
Hildur skákaði þar þaulreyndum kvikmyndatónskáldum; John Williams, Thomas Newman, Alexandre Desplat og Randy Newman sem samanlagt hafa marga tugi tilnefninga til Óskarsverðlauna á bakinu. Það var þó ýmislegt sem hefði getað ógnað Hildi, segir Anna Marsibil.
„Það voru ákveðnar aðstæður sem hefðu getað skapast til þess að kjósendur í Akademíunni hefðu kosið til dæmis John Williams, sem er nú ótrúlegt tónskáld, eða Thomas Newman sem tapaði þarna í fimmtánda skipti möguleikanum á að vinna Óskar.“
Fyrirmynd kventónskálda um allan heim
Ræða Hildar vakti athygli en fram að þessu hafði kona ekki verið tilnefnd til Óskarsverðlauna í þessum flokki í 20 ár. „Til stúlknanna, til kvennanna, til mæðranna, til dætranna sem heyra tónlistina ólga innra með sér: gerið það að láta í ykkur heyra – við þurfum að heyra raddir ykkar,“ sagði hún þegar hún tók við Óskarsstyttunni.