Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kvennakraftur fullkomnaður á sviðinu

Mynd: Samsett / EPA

Kvennakraftur fullkomnaður á sviðinu

10.02.2020 - 11:47

Höfundar

Ofurkonurnar Brie Larson, Gal Gadot og Sigourney Weaver drógu nafn Hildar Guðnadóttur úr umslaginu á nýafstaðinni Óskarsverðlaunahátíð. „Þetta var magnað augnablik,“ segir Anna Marsibil Clausen sem stödd er í Los Angeles.

„Það var rosalega flott hvernig Óskarinn byggði þetta upp,“ segir Anna Marsibil Clausen, dagskrárgerðarkona RÚV sem stödd er í Los Angeles til að flytja fréttir frá sögulegri Óskarsverðlaunahátíð, þegar hún lýsir aðdragandanum að því þegar tilkynnt var að Hildur Guðnadóttir fengi Óskarsverðlaun fyrir tónlistina í Joker.

Þar á sviðinu voru þrjár „ofurkonur“ eins og hún orðar það; þær Brie Larson, Gal Gadot og Sigourney Weaver, sem byrjuðu á því að kynna fyrsta kvenstjórnandann til þess að stjórna Akademíusinfóníunni meðan spiluð voru brot úr tónlistinni sem tilnefnd var, áður en nafn Hildar var dregið úr umslaginu. „Einhvern veginn var þessi kvennakraftur fullkomnaður á sviðinu.“

Hefðu getað ógnað Hildi

Hildur skákaði þar þaulreyndum kvikmyndatónskáldum; John Williams, Thomas Newman, Alexandre Desplat og Randy Newman sem samanlagt hafa marga tugi tilnefninga til Óskarsverðlauna á bakinu. Það var þó ýmislegt sem hefði getað ógnað Hildi, segir Anna Marsibil.

„Það voru ákveðnar aðstæður sem hefðu getað skapast til þess að kjósendur í Akademíunni hefðu kosið til dæmis John Williams, sem er nú ótrúlegt tónskáld, eða Thomas Newman sem tapaði þarna í fimmtánda skipti möguleikanum á að vinna Óskar.“

Fyrirmynd kventónskálda um allan heim

Ræða Hildar vakti athygli en fram að þessu hafði kona ekki verið tilnefnd til Óskarsverðlauna í þessum flokki í 20 ár. „Til stúlknanna, til kvennanna, til mæðranna, til dætranna sem heyra tónlistina ólga innra með sér: gerið það að láta í ykkur heyra – við þurfum að heyra raddir ykkar,“ sagði hún þegar hún tók við Óskarsstyttunni.

epa08207859 Hildur Guonadottir (2L) embraces Gal Gadot (2R) as she reacts after winning the Oscar for Achievement in Music written for Motion Pictures (Original Score) during the 92nd annual Academy Awards ceremony at the Dolby Theatre in Hollywood, California, USA, 09 February 2020. The Oscars are presented for outstanding individual or collective efforts in filmmaking in 24 categories.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hildur Guðnadóttir í góðum félagsskap.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún hefur verið á þessum nótum á yfirstandandi verðlaunatímabili. „Ég held að Hildur verði fyrirmynd fyrir unga Íslendinga í áratugi,“ segir Anna Marsibil, „en líka fyrir ung kventónskáld um allan heim. Það er ótrúlega mikilvægt, því þessi verðlaun eru sérlega karllæg. Það hafa aðeins sjö konur verið tilnefndar frá upphafi, þessi 92 ár sem Óskarsverðlaunin hafa verið afhent.“

Rætt var við Önnu Marsibil Clausen á Morgunvaktinni á Rás 1, um sigur Hildar Guðnadóttur og önnur helstu tíðindi frá Óskarsverðlaunahátíðinni.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Við erum öll að springa úr stolti í dag“

Kvikmyndir

Suðurkóreskur sigur og óvænt sneypuför stórmynda

Kvikmyndir

Hildur um sigurinn: Þetta var býsna brjálað augnablik

Kvikmyndir

Óskarinn – allar tilnefningar, allir sigurvegarar