Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Kvenmannslausar sögubækur

02.09.2011 - 18:27
Jafnrétti milli karla og kvenna í námsbókum í sögu á miðstigi grunnskóla er stórlega ábótavant, samkvæmt rannsókn sem unnin var fyrir Jafnréttisstofu. Hlutur kvenna í Íslandssögunni er jafnvel gerður minni en heimildir bera vitni um.

Hlutdeild kynjanna í námsefni í sögu fyrir miðstig grunnskóla var greint í rannsókninni. Skoðaðar voru 11 námsbækur. Þegar litið er til heildartíðni nafnbirtinga í námsefninu kemur í ljós að konur eru aðeins 12% nafngreindra einstaklinga. Einnig kemur fram að karlar eru höfundar námsefnis í 93% tilvika. Sérstaka athygli vakti að nýjustu námsbækurnar í Íslandssögu komu verst út.

Kristín Linda Jónsdóttir vann rannsóknina og segir að nemendur eigi að læra um sögu bæði kvenna og karla. Rannsóknin sýni að sjónarhornið sé allt of þröngt. Þannig ætti frekar að tala um landnámshjónin Ingólf og Hallveigu sem námu land í Reykjavík en ekki að landnámsmaðurinn Ingólfur Arnarson hafi numið land í Reykjavík og minnast ekki á Hallveigu. Kristín Linda segir að til séu heimildir og gögn um hana. Hún segir þessa þöggun þar sem konunum sé sleppt algjörlega óþarfa og óviðunandi. Hún telur að það þurfi að gera ákveðinn vinnuramma um námsefnisgerð þar sem hlutfall beggja kynjanna sé tryggt.