Ásgeir var forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings á árunum fyrir hrun og eftir skipun hans í embætti Seðlabankastjóra hafa ummæli hans um bankana verið rifjuð upp. Í maí 2008 sagði hann meðal annars að rekstur bankanna gengi þokkalega. Rætt var við Ásgeir í Kastljósi kvöldsins. Þar var hann spurður að því hvort hann hefði talað gegn betri þarna nokkrum mánuðum fyrir hrun. „Ég held að ég hafi aldrei á ævinni talað gegn betri vitund, svo það sé á hreinu, og í þessari umræðu – margar af þeim efnahagsspám sem ég lagði upp með gengu eftir, eins og varðandi fasteignaverð og gengi krónunnar og svo framvegis. Ég held að ég hafi verið með svartsýnustu mönnum á þessum tíma. Ég hins vegar gerði mér ekki alveg grein fyrir því að á hve veikum grunni bankarnir stóðu,“ sagði Ásgeir í Kastljósi.
Lærði mikið af hruninu
Þá sagði hann að markmiðið með útrás bankanna hafi verið að dreifa áhættu og það hafi verið ástæðan fyrir því að þeir juku lánshæfi sitt. Ásgeir var 33 ára gamall þegar hann var skipaður aðalhagfræðingur Kaupþings. Því starfi sinnti hann í fjögur ár og kveðst hafa lært mikið á þeim tíma. „Ég held að ég hafi lært ansi mikið um það hvernig fjármálamarkaðir starfa og einnig hvernig bankar starfa. Ég held að þessi fjögur ár hafi undirbúið mig verulega fyrir það starf sem að ég er í núna.“
Treystir íslensku bönkunum
Ásgeir kveðst treysta íslensku bönkunum. Sá banki sem ekki njóti trausts sé búinn að vera. „Peningahagfræði er ekkert ósvipuð guðfræði. Hún byggir á trú og trausti. Vitanlega treysti ég þeim bönkum sem nú starfa.“ Þá sagði hann að starfsumhverfi bankanna væri allt öðruvísi í dag en á árunum fyrir hrun, meðal annars vegna þess að nú sé peningakerfið innlent og meirihluti skulda bankanna í íslenskum krónum.
Telur samsetningu vísitölu óheppilega
Við endurskoðun peningastefnu lagði Ásgeir til að húsnæðisliður yrði tekinn út úr vísitölunni sem verðbólgumarkmið miðar við, þannig að það þrýsti verðbólgunni ekki upp. Aðspurður hvort hann ætli að láta verða af því segir hann að það sé ekki hans sem Seðlabankastjóra að ráða því. Hann geti hins vegar haft skoðun á málinu. „Ég tel að samsetning vísitölunnar sé óheppileg og það að hafa eignaverð inni í vísitölunni, en hins vegar er þetta ákvörðun sem stjórnmálamenn verða að taka og yfirmenn Hagstofunnar og í rauninni Hagstofan sjálf.“
Fréttin hefur verið uppfærð.