Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kusu á stuttbuxum á Íslendingabar

28.10.2017 - 18:57
Mynd með færslu
Myndin var tekin á Nostalgíu 9. október síðastliðinn þegar karlalandslið Íslands í fótbolta sigraði Kósóvó.  Mynd: Nostalgía
Salerni á Íslendingabarnum Nostalgíu á Tenerife á Kanaríeyjum var breytt í kjörklefa í vikunni og þar tóku um tuttugu Íslendingar þátt í utankjörfundaratkvæðagreiðslu vegna alþingiskosninganna. Von er á nokkur hundruð Íslendingum á kosningavöku þar í kvöld.

Að sögn Herdísar Hrannar Árnadóttur, eiganda Nostalgíu, hafa sjaldan verið eins margir Íslendingar saman komnir á Tenerife og nú. Bæði heimamenn og ferðamenn kusu í vikunni. „Hingað kom fulltrúi frá ræðismanninum á Kanarí og við breyttum Nostalgíu í kjörstað og það var mjög hátíðlegt. Við notuðum annað salernið sem kjörklefa sem var svolítið sérstakt,“ segir Herdís. 

Nokkuð var um að ferðamenn hefðu gleymt að kjósa áður en þeir fóru í frí til Tenerife. „Þeir tóku því fegins hendi að geta kosið á stuttbuxum og fengið sér svo mojito á eftir.“ 

Mynd með færslu
Herdís Hrönn og Sævar Lúðvíksson á Nostalgíu, Íslendingabar á Tenerife.  Mynd: Herdís Hrönn Árnadóttir

Flogið var með atkvæðin til Íslands á miðvikudagskvöld. Þeim þurfti að skila í síðasta lagi á föstudag. Herdís segir að ábyrg manneskja hafi komið frá Tenerife á réttan stað á Íslandi.

Aðdragandinn að utankjörfundaratkvæðagreiðslunni á barnum var stuttur og vonar Herdís að aftur verði kosið á þar fyrir borgar- og sveitarstjórnarkosningar í vor og að hægt verði að auglýsa kjörfundinn með meiri fyrirvara.

Búist er við á milli tvö og þrjú hundruð manns á kosningavöku á barnum í kvöld. Haldin verður grillveisla og boðið upp á lambalæri. Von er á um 60 manns í grillveisluna sem hefst klukkan 20:00. „Við erum svo heppin að við erum með íslenska sjónvarpið hjá okkur í kerfinu þá ætlum við síðan að setja á RÚV og horfa á afmælistónleika Magga Eiríks. Og svo verður bara beðið eftir fyrstu tölum og við eigum von á 200 til 300 manns, hið minnsta. Það verður örugglega mikið fjör hjá okkur og vonandi einhverjir ánægðir með úrslitin. Þetta verður ekki eins og þegar landsleikir eru og allir ánægðir með úrslitin en ég vona að það verði einhverjir ánægðir.“ 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir