Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kúrekar Valkyrjunnar

Mynd: Bragi Páll Sigurðsson / Bragi Páll Sigurðsson

Kúrekar Valkyrjunnar

27.06.2019 - 13:06

Höfundar

Pistlahöfundurinn og ljóðskáldið Bragi Páll Sigurðarson er nú staddur á hafi úti. Ásamt fríðu föruneyti siglir hann á skútunni Valkyrju sem er á leið frá Sikiley til Íslands. Með Braga í för eru landkrabbarnir Frank Arthur Blöndahl Cassata og Almarr Atlason sem er kominn úr kassanum og upp í skútu.

„Þeir voru mikið til gubbandi fyrstu sólarhringana og vansælir en þeir eru enn hér sem mér finnst til marks um að það sé hægt að venja hvern sem er við þetta líferni,“ segir Bragi Páll um samferðamenn sína á leið frá Sikiley til Reykjavíkur á skútu. Bragi er sjálfur skipstjóri en hann á ekki langt að sækja siglingadelluna. Faðir hans, Sigurður Páll Jónsson útgerðarmaður og þingmaður Miðflokksins, hefur verið þeim til halds og trausts í ferðalaginu og sigldi með þeim fyrstu þúsund kílómetrana eða þar til vélin bilaði. Þá þurfti hann að fljúga heim og loka þingi. „Hann er að koma aftur núna til að hitta okkur í Dublin og sigla með okkur heim. Hann er leiðtogi hópsins og búinn að vera, jafnvel í sinni fjarveru,“ segir Bragi stoltur. 

Frelsið við hið opna haf

Aðeins átta ára gamall byrjaði Bragi að fara út á sjó með föður sínum og var fyrst um sinn allt annað en hrifinn. „Mér fannst þetta algjörlega ógeðslegt, sem þetta náttúrulega er,“ rifjar Bragi upp. „En hann fór strax að leyfa mér að taka mikla ábyrgð sem fól meðal annars í sér að ég fengi að stýra bátnum og sigla í land á meðan hann dúllaði sér.“

Þótt föður Braga hafi kannski mistekist að gera son sinn að sjómanni tókst honum að smita hann af siglingabakteríunni. „Þetta talaði til mín. Frelsið við hið opna haf, að vera kúreki á sínu skipi og geta farið hvert sem er.“

Bragi segir að þessa þráhyggju hafi hann aldrei losnað við en núna hefur hún leitt hann að ströndum Írlands en flotinn kemur við í Dublin áður en haldið verður heim til Íslands. „Svo fór ég að heillast af skútulíferninu, hugmyndinni um að geta búið um borð í fljótandi húsi og siglt hvert í heiminum sem er.“

Brösótt byrjun

Bragi hafði skoðað báta í nokkur ár áður en Valkyrjan á Sikiley fangaði hjarta hans. Samlífið byrjaði þó brösulega. „Það var fullkominn skíthæll sem seldi okkur skútuna. Það var sem tímasprengju hefði verið plantað í hana því um leið og við siglum úr höfn fer allt að bila.“

Ógæfan náði hámarki þegar vélin bræddi úr sér fyrir ströndum Almeríu á Spáni þegar skipverjarnir voru búnir að sigla um þúsund mílur. „Þessi náungi sveik allt sem hann gat svikið. Það var búið að segja mér að kaupa bara af Þjóðverjum en það er svo djöfulli dýrt að kaupa af þeim. Ég fer því að díla við mafíósana í Palermo og í ljós kemur að ég hefði átt að hlusta á mér vitrari menn. Hann Roberto vinur minn sem seldi mér skútuna virðist nefnilega hafa strípað hana af öllu lauslegu sem var um borð.“

Þrátt fyrir óheppni í skútukaupum stefnir í að skútan sigli í höfn á Íslandi eftir rúma viku, ef veður og vindar verða með Valkyrjunni í liði.

Rætt var við Braga Pál í Síðdegisútvarpinu en innslagið má hlýða á í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Gleymt atómskáld dregið fram í dagsljósið

Popptónlist

Töfrabörn tenging við þriggja ára sjálf