Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kúrbítsklattar með myntu

19.11.2015 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd: Sagafilm
Þessir kúrbítsklattar eru upplagður forréttur en líka léttur kvöldmatur. Þeir eru sívinsælir enda innihalda þeir ekkert nema ljúffeng hráefni sem tala svo vel saman, m.a. egg, heimalagað brauðrasp, myntu, fetaost og rifinn kúrbít. Ég segi það hreint út að mér finnst þeir óviðjafnanlegir!

Kúrbítsklattar með myntu (fyrir fjóra)

2 kúrbítar (1 ½ ef þeir eru stórir)
4 vorlaukar (má sleppa og nota í staðinn heilan blaðlauk)
2 handfyllir fersk mynta, söxuð (eða klippt niður með skærum)
1 handfylli fersk steinselja, söxuð (eða klippt niður með skærum)
250 g salatfetaostur í saltvatni (ein krukka/pakkning, vatnið EKKI notað)
1 tsk. paprikukrydd
4 egg – hamingjusöm (slegin fyrst saman)
½ bolli gróft spelt eða brauðmylsna (um 3-4 brauðsneiðar (fer eftir stærð) – grillaðar og svo hakkaðar í blandara/matvinnsluvél í mylsnu. Mér finnst best að nota súrdeigsbrauð)
1 tsk. sjávarsalt og 1 tsk. svartur pipar

Auka:

Spírupoki úr Ljósinu á Langholtsvegi (til að kreista vatnið úr kúrbítnum).
Lífræn kaldpressuð sólblómaolía, kókosolía eða ólífuolía til að steikja upp úr
1 lime, safinn – til að kreista yfir klattana þegar búið er að steikja þá

Grillið súrdeigsbrauðið þangað til það verður vel brúnt (en ekki brennt) og kælið.
Rífið kúrbítana á rifjárni eða í matvinnsluvél.
Setjið rifinn kúrbítinn í spírupoka úr gerviefni (fæst í Ljósinu á Langholtsvegi) og kreistið úr honum mestan vökva.
Saxið laukinn smátt og setjið í aðra stóra skál.
Saxið myntu og steinselju og blandið saman við laukinn.
Hellið vatninu af fetaostinum og myljið fetaostinn í sömu skál og kryddjurtirnar og laukurinn eru í.
Setjið paprikukryddið út í fetaosts- og laukkryddblönduna.
Blandið rifnum kúrbítnum sem búið er að kreista vökvann úr saman við laukinn, myntuna, steinseljuna, fetaostinn og paprikukryddið.
Hrærið eggin fjögur saman og bætið út í.
Hakkið grillaða brauðið í brauðmylsnu í blandaranum ykkar (eða matvinnsluvél) - setjið spelt/brauðmylsnu saman við blönduna og hrærið allt vel saman.
Saltið og piprið
Steikið litlar bollur upp úr ögn af kaldpressaðri sólbóma-, ólífu eða kókosolíu á meðalhita báðum megin þar til þær verða fallega brúnar.

 

sigrunh's picture
Sigrún Hermannsdóttir