Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

KÚ borgar meira en Mjólka fyrir mjólkina

13.01.2013 - 21:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Mjólkurbúið KÚ þarf að greiða sautján prósentum meira fyrir mjólkina sem keypt er frá MS heldur en Mjólka, samkvæmt reikningum sem MS sendi báðum fyrirtækjunum.

Ólafur M. Magnússon, forstjóri hjá KÚ, segir að þetta sé ólíðandi og hyggst kæra MS til Samkeppniseftirlitsins. Forstjóri MS segir að reikningarnir sýni ólík viðskipti.

Forsvarsmenn KÚ uppgötvuðu þetta þegar reikningur til Mjólku barst KÚ fyrir slysni, en búin eru með húsnæði hlið við hlið. MS rukkaði Mjólku um tæpar 78 krónur fyrir lítrann í mars, en mánuði síðar var KÚ rukkað um tæplega 91 fyrir mjólkurlítrann.

„Það er náttúrulega algjörlega ólíðandi að Mjólkursamsalan sem er með einokunarstöðu við að útvega hráefnið, - er mjólk, - geti lagt samkeppnisskatt á keppinauta sína með þessum hætti,“ segir Ólafur.

Þetta sé sautján prósent álag á hráefnið. Ólafur, sem áður átti Mjólku, bendir á að frá því hún var seld til Kaupfélags Skagfirðinga hafi þrír fjórðu af framleiðslu Mjólku flust til MS. Hann segir fátt hafa verið um skýringar hjá MS á þessari framgöngu. „Við ætlum okkur að kæra þessa framgöngu til Samkeppniseftirlitsins og vonast til að þar verði faglega tekið á málunum,“ segir hann.

Einar Sigurðsson, forstjóri MS, sagði í samtali við fréttastofu að ástæðan fyrir verðmuninum væri að þetta væru í raun ólík viðskipti. Reikningurinn til KÚ sýni sölu á mjólk í lausu máli eftir verðskrá. Hinn reikningurinn sýni hins vegar mjólk sem er miðlað inn í sameiginlegt kerfi MS og Kaupfélags Skagfirðinga, móðurfélags Mjólku, á grunnverði. Þau fyrirtæki beri hins vegar ýmsan annan kostnað af mjólkinni sem sjáist ekki á reikningum af þessu tagi.

Einar segir alla hafa rétt til að kæra til Samkeppniseftirlitsins og að MS muni hlýta leiðbeiningum þess í hvívetna.