Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kröfur ljósmæðra „algerlega óaðgengilegar“

11.04.2018 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar, segir að harðlínustefna ríkisstjórnarinnar í kjaramálum eigi eftir að bitna allverulega á ljósmæðrum. Kjaramál þeirra séu í svo miklum ólestri að þær hafi síðastliðnar vikur sagt upp í tugatali. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir kröfur ljósmæðra vera „algerlega óaðgengilegar“. Þær myndu setja fordæmi sem settu allar aðrar kjaraviðræður í algert uppnám.

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. 

Halldóra spurði Bjarna út í stöðuna í kjaraviðræðum ljósmæðra og ríkisins og hvort hann sem ráðherra fjármála bæri ekki ábyrgð á því neyðarástandi sem nú blasti við. „Það gengur ekki að segja að ábyrgðin sé hjá stéttarfélögunum vegna þess að síðast þegar ljósmæður fóru í verkfall samþykkti fjármálaráðherra lög á verkfallið. Þær fengu ekki að semja.“

Halldóra vildi vita hvort ráðherra hefði sett sig sjálfur inn í kjaraviðræðurnar í ljós þess hve alvarleg staðan væri og hvort hann teldi stöðuna yfir höfuð alvarlega. „Hefur ráðherra kynnt sér mögulegar afleiðingar þess ef stór hluti ljósmæðra hættir störfum? Og aftur: Hver ber ábyrgð?“

Bjarni sagðist ekki ætla í neina keppni í hverjum þætti vænna um ljósmæður. Sjálfur hefði hann farið upp á fæðingardeild fjórum sinnum og þar hefði reynt á þjónustu ljósmæðra. „Ég held að fari ekki vel á því að við förum í einhverja keppni um hvert okkar kunni best að meta þá sem hér eiga undir.“

Bjarni sagði vandann við kjaradeilu ljósmæðra vera að þegar kjaraviðræður stóðu ágætlega og stutt hefði verið á milli manna hefði samninganefnd ljósmæðra skipt um kúrs. Flest sem áður hafði verið rætt hefði verið ýtt til hliðar og nýjar og allt aðrar kröfur færðar fram. 

Halldóra ítrekaði þá spurninguna sína, hver það væri sem bæri ábyrgðina af þeim neikvæðu afleiðingum sem „það hefur fyrir samfélagið að missa þessar konur úr vinnu og af spítalanum í aðra vinnu, af því að launin þeirra eru ekki nægilega góð?“ 

Bjarni sagði þetta tvíeggjað sverð. Það væri ábyrgðarhluti að ganga að kröfum sem settu aðra samninga í fullkomið uppnám. „Ég get bara sagt það alveg eins og er þannig að það dyljist engum að þær kröfur sem settar hafa verið fram núna eru fyrir samninganefnd ríkisins algerlega óaðgengilegar.“ Kröfurnar myndu setja fordæmi sem settu allar aðrar kjaraviðræður í þessu landi á þessu ári og næsta ári í algert uppnám.