Kröftugri skógareldar geta valdið vítahring

Mynd: AuBC / AuBC
Í milljónir ára hafa eldar átt þátt í að móta líf á jörðinni og í hundruð milljóna ára hafa vistkerfi jarðarinnar brunnið. Þegar við mennirnir komum til sögunnar olli beislun eldsins þáttaskilum í þróun okkar sem tegundar. Eldur veitti hita á köldum vetrarkvöldum, var vörn gegn rándýrum og gerði það mögulegt að elda mat sem jók öryggi matvælana með því að minnka hættu á sýkingum.

Hafdís Hanna Ægisdóttir skrifar:


Ákveðin vistkerfi jarðar hafa lengi þróast með eldi. Þessi eldfimu vistkerfi er einna helst að finna á svokölluðum Miðjarðarhafssvæðum eða öllu heldur þeim svæðum á jörðinni sem hafa Miðjarðarhafsloftslags (milda raka vetur og þurr heit sumur) eins og Kalifornía, miðhluti Síle, Höfðasvæðið í Suður Afríku, löndin við Miðjarðarhafið og Suðvesturhluti Ástralíu. Þessu flórusvæði eru aðeins rúm 2% af þurrlendi jarðarinnar en þar er gífurlega mikill fjölbreytileiki plantna – eða um 17% af flóru jarðar.

Þeir náttúrulegu skógareldar sem í gegnum árin og aldirnar hafa reglulega kveiknað í þessum vistkerfum gegna mikilvægu hlutverki. Eldurinn getur til dæmis valdið því að dauð laufblöð á skógarbotninum brenna og næringarefnin berast aftur niður í jarðveginn til góðs fyrir lífríkið. Og eldurinn hefur einnig hlutverk í dreifingu og spírun fræja. Aldin sumra tegunda þurfa að fara í gegnum eld til að opnast og dreifa fræjum á meðan fræ annarra tegunda spíra ekki nema eftir hitann eða reykinn sem fylgir eldunum. Eldurinn hefur því átt þátt í því að móta þessi tegundafjölbreyttu vistkerfi.

Þó gróðureldar hafi brunnið áður en mannkynið kom til sögunnar þá jókst tíðni þeirra og umfang með tilkomu okkar. Svo virðist sem mannkynið hafi byrjað mjög snemma að nota eld til að hafa áhrif á umhverfi sitt en áhrif einstakra elda voru þó lengi vel að mestu staðbundin.

En nú eru blikur á lofti.

Vísindamenn hafa árum saman varað við því að líkur væru á því að gróðureldar myndu aukast að umfangi og styrk í kjölfar þess að styrkur gróðurhúsalofttegunda hefur aukist í andrúmsloftinu með tilheyrandi breytingum á loftslagi jarðarinnar.

Þessar áhyggjur vísindamanna eru nú því miður að rætast.

Frá því á árinu 2018 höfum við fengið fregnir af óvenju kröftugum og víðfemum eldum í Kaliforníu, Alaska, Síberíu og í Amasonskóginum. Eldarnir í Amazon voru gríðarlega stórir en þar brann svæði sem er tæplega ¾ af stærð Íslands.

Það hefur varla farið fram hjá nokkurri manneskju að enn umfangsmeiri gróðureldar en geisuðu í Amazonskóginum í fyrra, geisa nú í Ástralíu og hafa eldarnir verið með þeim verstu í sögu landsins. Að minnsta kosti 25 manns hafa látst, margir hverjir við slökkviliðsstörf. Um 2000 heimili hafa eyðilagst og hundruð þúsunda manna hafa þurft að yfirgefa heimili sín.

Lífríki Ástralíu hefur orðið harkalega fyrir barðinu á gróðureldunum. Meira en einn milljarður dýra hefur drepist. Þau dýr sem lifa eldanna af með því að flýja eða grafa sig niður í jarðveginn, eiga þó líklega ekki bjarta tíma framundan. Þegar þau snúa aftur til sinna náttúrulegu heimkynna gætu þau drepist af matar- og vatnsskorti.

Gróðureldar eru ekki nýjir af nálinni í Ástralíu. Eldur er mikilvægur í sumum vistkerfum landins og hefur verið notaður í þúsundir ára af frumbyggjum Ástralíu. Ástralir búast við fréttum af gróðureldum í nóvember hvert ár þegar hiti hefur hækkað og gróður er þurr. En eldarnir sem nú geisa eru af allt annarri stærðargráðu en áður hefur sést.

En hvað er það sem gerir eldanna sem nú geisa svona alvarlega og hvað veldur eldofsanum?

Hitabylgja, óvenjulega langt þurrkatímabil og sterkir vindar hafa gert það að verkum að aðstæður fyrir gróðurelda til að dreifa sér og eflast að þrótti hafa sjaldan eða aldrei verið betri.

Venjulega brenna eldar í suðausturhluta Ástralíu frá desember fram í mars. Eldarnir sem nú geisa byrjuðu hins vegar í september - mun fyrr en venjulega - og líklegt þykir að þeir muni brenna í nokkra mánuði í viðbót enda ástralska sumarið síður en svo lokið. Við höfum því ekki enn séð fyrir endann á þessum ógnvænlegu náttúruhamförum.

Ástralska vorið frá september til nóvember var það þurrasta í manna minnum og hæfðu þurrkarnir frjósömustu landbúnaðarsvæði Ástralíu. Eftir óvenju þurrt og heitt vor skall svo á hitabylgja um miðjan desember þar sem hitastig í landinu fór upp í rúmlega 40°C. Og við það urðu eldarnir skæðari.

Hættulegstu aðstæðurnar verða þegar heitt þurrt loft blæs frá eyðimörkinni í miðri Ástralíu niður til strandanna. Veðraskil þar sem loftmassar mætast geta valdið því að vindur getur breytt um stefnu mjög skyndilega og stórir eldar dreifast því víðar og af meiri krafti en venja er.

Skógareldar geta orðið svo stórir og heitir að þeir hrinda af stað sínu eigin veðrakerfi með eldstormum sem bæði er hættulegir og ófyrirsjáanlegir. Þessir eldstormar geta framkallað eldingar, sterka vinda og jafnvel hvirfilbylji. En þeim fylgir hins vegar ekki úrkoma. Svona eldhvirfilbylur varð slökkviliðs sjálfboðaliða að bana nýverið þegar hann varð undir slökkviliðsbíl sem hvirfilbylur feykti upp. Og slökkviliðsbílar eru engin smá smíði.

En munu vistkerfin og lífríkið ekki bara ná sér fljótt á strik eftir eldana? Þessi svæði eru vön því að eldar geisi reglulega.

Það er rétt að geta þess að eldar eru aðeins góðir ef þeir gegna ákveðnu hlutverki, til að mynda við hringrás næringarefna og við dreifingu og spírun fræja. En ef eldarnir brenna of lengi eða ef jarðvegurinn verður þurr of lengi þá eiga vistkerfin mun erfiðara með að ná sér á strik.

Vistfræðingurinn Camille Stevens-Rumann við Colorado State háskólann í Fort Collins í Bandaríkjunum birti nýlega vísindagrein um rannsókn sína á áhrif skógarelda á barrskóga í bandarísku Klettafjöllunum. Í rannsókn sinni vildi hún svara þeirri spurningu hvort og þá hvernig loftslagsbreytingar síðustu áratuga hafa haft áhrif á endurvöxt trjáa í kjölfar skógarelda. Camille og félagar rannsökuðu 1500 svæði í barrskóginum sem höfðu brunnið í alls 52 skógareldum.  Niðurstöður rannsóknarinnar sýna marktækt betri endurvöxt trjáa eftir elda sem geisuðu á árunum 1985-1999 borið saman við elda sem geisuðu á árunum 2000-2015.

Hlutfall svæða í skóginum þar sem trén uxu ekki aftur eftir elda nærri tvöfaldaðist eftir síðustu aldarmót sem fellur saman við hækkað hitastig og meiri þurrk. Skógar sem vaxa á heitustu og þurrustu svæðunum voru viðkvæmastir og eldar á þessum svæðum geta breytt vistkerfunum og landslaginu til frambúðar, til að mynda frá skóglendi í gras- eða kjarrlendi.

Tíðari, umfangsmeiri og kröftugri skógareldar geta valdið vítahring sem erfitt getur verið að brjótast út úr. Eldarnir valda því að meira koltvíoxíð berst út í andrúmsloftið og við glötum trjánum sem annars myndu binda kolefni í gegnum ljóstillífun. Ef skógarnir okkar minnka vegna tíðari og öflugri skógarelda og minni endurvaxtar trjáa, hvort sem þeir eru í Ástralíu, á Amazonsvæðinu, í Alaska eða í bandarísku Klettafjöllunum - þá eykur það enn á styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu sem svo eykur enn á loftslagshamfarirnar.

Við stöndum á tímamótum. Við getum enn snúið blaðinu við og hindrað að verstu spár vísindamanna verði að veruleika. Vonandi verða eldarnir sem nú geisa í Ástralíu til þess að yfirvöld þar í landi og um allan heim vakni upp af vondum draumi og láti nú hendur standa fram úr ermum til að sporna við enn frekari hörmunum.

Vonandi verður árið 2020 – árið þar sem okkur tókst að snúa við jarðarskútunni og stefna í átt að sjálfbærari heimi.

 

vefritstjorn's picture
Vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi