Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Kröfðust þvagsýnis vegna fjárhagsaðstoðar

28.01.2014 - 15:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Krafa félagsmálanefndar Fljótsdalshéraðs um þvagsýni frá manni, sem sótti um fjárhagsaðstoð, var ekki í samræmi við lög samkvæmt úrskurði Persónuverndar. Umsækjandanum var synjað um frekari fjárhagsaðstoð þar sem hann neitaði að gefa þvagsýni.

Maðurinn gaf þvagsýni í fyrsta skipti sem þess var óskað þegar hann sótti um fjárhagsaðstoð í fyrra. Ekki mældust fíkniefni í sýninu. Hann neitaði að gefa fleiri þvagsýni og var vegna þess neitað um frekari fjárhagsaðstoð. Fljótsdalshérað bar því að heimilt væri að synja umsækjendum um fjárhagsaðstoð væru þeir í neyslu áfengis eða annarra vímuefna. Þegar næst var óskað eftir þvagsýni vildi maðurinn ekki verða við beiðnni og kvartaði yfir því að vera beðinn um þvagsýni í hvert skipti sem hann sækti um fjárhagsaðstoð. Beiðni um frekari fjárhagsaðstoð var hafnað á þeim forsendum að maðurinn hefði ekki verið tilbúinn til að afsanna að hann neytti fíkniefna. Persónuvernd segir að baki íþyngjandi kröfum stjórnvalds þurfi að liggja skýr lagaheimild. Beiðnin um þvagsýni í þessu tilfelli hafi ekki verið í samræmi við lög.