Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kröfðu Icelandair um bætur vegna tapaðra sumarfrísdaga

30.01.2020 - 10:28
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Samgöngustofa hefur hafnað kröfu hjóna sem voru föst í Seattle í tvo daga vegna ofsaveðurs á Íslandi í apríl síðastliðnum. Hjónin kröfðust þess að Icelandair greiddi þeim staðlaðar skaðabætur og skaðabætur vegna vegna tapaðra sumarfrísdaga.

Í úrskurði Samgöngustofu kemur fram að Icelandair hafi fallist á að greiða hjónunum útlagðan kostnað.

Í kvörtuninni kemur fram að hjónin hafi átt að koma til Íslands þann 14. apríl en ekki náð heim fyrr en 16. apríl. 

Icelandair hafi ekki haft fyrir því að hafa samband við þau og bjóða þeim að komast heim á annan hátt til að komast hjá annarri sólarhringstöf. „Eðlilegt  getur talist að fyrri sólarhringurinn sé vegna veðurs en ekki sá seinni,“ segir í kvörtun hjónanna.  Ekki hafi verið hægt að ná í neinn fulltrúa félagsins þótt þau hafi bæði reynt að hringja til Íslands eða senda flugfélaginu skilaboð á Facebook. 

Icelandair sagði í svari sínu að afar erfiðar aðstæður hefðu skapast á þessum tíma. Veðrið hefði verið afar slæmt á Keflavíkurflugvelli frá 12. apríl til aðfaranætur 14. apríl.  Endurbóka þurfti mörg þúsund farþega í ný flug og því var fyrsta tækifæri til að koma hjónunum heim 15.apríl.

Samgöngustofa segir ljóst af gögnum málsins að Icelandair hafi þurft að aflýsa eða seinka mörgum ferðum þegar óveðrið gekk yfir. Flugfélagið hafi lagt sig fram við að takmarka afleiðingar af hinum óviðráðanlegu aðstæðum eftir bestu getu. 

Hvað bætur varðandi hina glötuðu sumarfrísdaga segir Samgöngustofa að hún hafi ekki ákvörðunarvald um slikar bótakröfur. Hjónin verði því að leita réttar síns á öðrum vettvangi.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV