Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kristín Ómars þolir ekki ryksuguhljóð

Mynd: Kiljan / RÚV

Kristín Ómars þolir ekki ryksuguhljóð

16.04.2015 - 13:06

Höfundar

Kristín Ómarsdóttir var í öndvegi í Kiljunni í gær og mætti þar í heldur óvenjulegt viðtal við Egil Helgason. Í þessu opinskáa spjalli kom eitt og annað forvitnilegt um rithöfundinn í ljós:

Egill H: Af hvernig hljóðum hrífstu?

Kristín Ó: Af andardrætti, söng og regni.

Egill H: Hvaða hljóð þolirðu ekki?

Kristín Ó: Eitt hljóð þoli ég ekki — það er ryksuguhljóð.

Egill H: Hvaða annað starf myndirðu kjósa að starfa við?

Kristín Ó: Eitthvað svona...á spítala. Umönnun! Ég vann einu sinni við að baða gamalt fólk. Ég væri alveg til í að vinna við það aftur. Mér fannst það mjög gaman.

Í myndskeiðinu má svo meðal annars komast að því hvað Kristín metur mest og minnst í fari annarra og hvað henni finnst einfaldlega skemmtilegast að gera. Spurningalisti Egils var byggður á viðtali Kristínar sjálfrar við rithöfundinn Álfrúnu Gunnlaugsdóttur, sem birtist í síðasta hefti Tímaríts Máls og menningar.

Kristín gaf nýverið út sína sjöundu skáldsögu, Flækingurinn, sem snertir á lífi fíkla í undirheimum Reykjavíkur. Fjallað var um bókina í Kiljunni fyrr í vetur þar sem gagnrýnendur þáttarins höfðu uppi eftirfarandi orð: „Hún er einstakur höfundur. Þetta er bók með mörgum lögum eins og alltaf hjá Kristínu. Magnað verk.“