Kristín íþróttamaður Ísafjarðarbæjar

25.01.2016 - 11:58
Mynd með færslu
Kristín Þorsteinsdóttir sundkona átti góðu gengi að fagna í Malmö um helgina. Mynd: Íþróttasamband fatlaðra
Kristín Þorsteinsdóttir var í gær valin íþróttamaður Ísafjarðarbæjar, þriðja árið í röð. Kristín setti tvö heimsmet á Evrópumeistarmóti DSISO, alþjóðasundsambands einstaklinga með downs heilkenni, sem og tíu Evrópumet. Kristín kom heim af mótinu með fimm gullverðlaun, auk silfurverðlauna og bronsverðlauna.

Skíðagöngukonan Anna María Daníelsdóttir var valin efnilegasti íþróttamaðurinn, en hún hefur getið af sér gott orð fyrir skíðagöngu. Hún varð þrefaldur unglingameistari Íslands í skíðagöngu árið 2015 og bikarmeistari SKÍ í sinum aldursflokki sem og sigraði 25 km göngu kvenna í Fossavatnsgöngunni. Tryggvi Sigtryggsson var heiðraður fyrir framlag sitt til íþróttastarfs í sveitarfélaginu, fyrir utan að vera virkur íþróttamaður um áratuga skeið lét hann nýverið af störfum sem formaður Golfklúbbs Ísfjarðar eftir 10 ár í starfi.

Íþróttamaður strandabyggðar

Rósmundur Númason var nýlega útnefndur íþróttamaður Strandabyggðar. Rósmundur þykir hafa náð góðum árangri í víðavangslaupi og skíðagöngu. Á síðasta ári varð hann einnig Landvættur, titill sem þeir hljóta sem ljúka á innan við tólf mánuðum: 50 kílómetra Fossavatnsgöngu, 60 kílómetra Bláa lóns hjólreiðum, 32,7 kílómetra Jökulsárhlaupi og 2,5 kílómetra Urriðavatnssundi. Rósmundur jákvæður og hvetjandi íþróttamaður og mikilvæg fyrirmynd. Vala Friðriksdóttir, sem leggur stund á skíðagöngu, hlaup og taekwondo, hlaut hvatningarverðlaun Strandabyggðar.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi