Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kreppa ekki yfirvofandi

12.09.2018 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gert er ráð fyrir töluverðum útgjaldavexti í fjárlagafrumvarpi næsta árs að mati hagfræðings. Sá kostnaður geti hins vegar borgað sig ef aðgerðirnar verða til þess að lægja öldur á vinnumarkaði. Efnahagssamdráttur sé ekki yfirvofandi.

Fjármálaráðherra kynnti í gær fjárlagafrumvarp næsta árs. Auka á útgjöld um fimmtíu og fimm milljarða króna. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, gagnrýnir þetta og þær forsendur sem frumvarpið er byggt, á um tveggja komma fimm prósenta hagvöxt á næstu árum.

„Við höfum gagnrýnt það á undanförnum árum að það er gert ráð fyrir lengstu hagsveiflu Íslandssögunnar. Hún mun á einhverjum tímapunkti taka enda. Það má lítið út af bregða ef þessar forsendur fara á hreyfingu. Við verðum líka að skoða þetta út frá því sjónarmiði að allir tekjustofnar ríkisins eru þandir til hins ýtrasta. Á þeim stað í hagsveiflunni sem við erum núna tel ég að það sé ekki skynsamlegt enda eigum við að leggja til hliðar og spara til mögru áranna og því miður held ég að það hefði mátt ganga lengra í þeim efnum,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson.

Katrín Ólafsdóttir, hagfræðingur og lektor í vinnumarkaðsfræði við Háskólann í Reykjavík, telur hins vegar að það stefni ekki í efnahagssamdrátt. 

„Til dæmis spár Seðlabankans gera ráð fyrir því að það verði áfram hagvöxtur. Það dragi úr hagvexti en að það verði áfram jákvæður hagvöxtur. Það er auðvitað alltaf mörguleiki á því að það verði kreppa en það er ekkert í spilunum sem bendir til þess að svo verði,“ segir Katrín.

Katrín tekur undir að útgjöld ríkisins sem birtast í fjárlagafrumvarpinu séu töluverð.

„Að því leyti sem hann getur orðið þensluhvetjandi myndi maður vilji sjá aðgerðir á móti sem draga úr. En svo má segja ef þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sérstaklega í skattamálum, verða til þess að lægja öldurnar á vinnumarkaði, þá myndi ég segja að það væri ef til vill kostnaðarins virði,“ segir Katrín.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV