Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Krefur DNB svara og segir bankann trausti rúinn

28.11.2019 - 03:54
Mynd með færslu
Sigrid Klæboe Jacobsen Mynd: J.B. Sættem - NRK
Sá langi tími sem það tók norska bankann DNB að loka vafasömum reikningum, sem tengjast meintu peningaþvætti og skattaundanskotum í Samherjamálinu, bendir til þess „að mjög margt hafi brugðist, og trúin á að DNB hafi yfirsýn yfir sína viðskiptavini er í algjöru núlli,“ segir Sigrid Klæboe Jacobsen, stjórnandi Tax Justice Network í Noregi, samtaka sem berjast gegn skattaundanskotum og peningaþvætti.

Í viðtali við NRK segist Klæboe Jacobsen miður sín eftir að upp komst að það hafi tekið DNB mörg ár að loka umræddum reikningum. Samherjaskjölin, sem lekið var til Wikileaks og Kveikur, Stundin, Al Jazeera og nú síðast NRK hafa unnið fréttir upp úr, sýna að stjórn DNB vissi ekki hverjir voru raunverulegir eigendur vafasamra reikninga í bankanum, sem allir tengdust Samherja.

Jafnt norsk sem alþjóðleg lög um peningaþvætti og aðgerðir gegn því kveða á um að slíta skuli viðskiptum og loka reikningum án tafar, viti bankinn ekki hverjir raunverulegir eigendur þeirra eru.

Eins og allt kerfið hafi brugðist

Jacobsen hefur áhyggjur af því að Samherjamálið sé aðeins eitt af mörgum. „Þetta er gríðarlega alvarlegt. Hér hafa menn lagt aðaláherslu á að ná í viðskiptavini, en ekki hirt mikið um það, hvers lags viðskiptavinir það eru. Það er eins og allt kerfið hafi brugðist,“ segir Jacobsen og krefst aðgerða. „Nú þarf að leggja öll spilin á borðið, svo að við fáum á hreint hvað gerðist, hvað brást og hver hlutur DNB, efnahagsbrotadeildar lögreglu og fjármálaeftirlitsins er í þessu máli.“

Eins og fram hefur komið í Kveik og víðar sýna Samherjaskjölin að dótturfélög Samherja hafa sent fúlgur fjár til skattaskjóla á borð við Dubaí og Marshalleyjar í gegnum fjölda reikninga í DNB. Eftir að fjallað var um málið í Kveik greindi bankinn NRK frá því að reikningum tveggja fyrirtækja með tengsl við Samherja hefði verið lokað 2018.

6,4 milljarðar fluttir í skattaskjól

Bankinn vildi ekki upplýsa hvaða fyrirtæki þetta voru, en síðar hefur komið í ljós að þetta voru Cape Cod, sem er skráð á Marshalleyjum, og JPC Shipmanagement, skráð á Kýpur. Samkvæmt frétt NRK yfirfærðu dótturfyrirtæki Samherja, Esja Seafood Ltd og Noa Pelagic Ltd,  samtals 477 milljónir norskra króna, jafnvirði um 6,4 milljarða íslenskra króna, til Cape Cod í gegnum DNB.