Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Krefst 26 milljóna króna í bætur

02.07.2015 - 16:49
Héraðsdómur Reykjavíkur
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur tók fyrir dóm í morgun mál Friðjóns Björgvins Gunnarssonar og Netverslunar ehf. gegn Skakkaturni, sem flytur inn og selur vörur frá Apple. Krafist er skaðabóta vegna lögbanns sem Skakkiturn fékk samþykkt á innflutning og sölu þeirra á Apple vörum.

Hæstiréttur felldi lögbannið úr gildi í mars í fyrra, fjórtán mánuðum eftir að sýslumaður setti lögbannið.

Netverslun ehf er aðili málsins fyrir hönd þrotabúsins Gegn einokun ehf. sem áður hét 1949 ehf. Friðjón er framkvæmdastjóri félagsins.

Tvíþættar kröfur
Kröfur Friðjóns og Netverslunar ehf, eru tvíþættar. Friðjón krefst þess að fá greiddar rúmlega 26 milljónir króna auk dráttarvaxta í skaðabætur vegna tekjumissis, tapaðs arðs og hlutafés á meðan á lögbanninu stóð og miskabóta vegna óþæginda og vanlíðanar sem hann og fjölskylda hans hafi orðið fyrir vegna málsins. Í stefnunni kemur fram að Friðjón hafi ekki getað lagt stund á þá vinnu sem hann hafið unnið allt frá árinu 2009, það er að flytja inn og bjóða til kaups Apple vörur. Áætluð laun á tímabilinu eru í stefnunni sögð vera tæpar þrjár milljónir króna. Þá hafi hann, sem eigandi alls hlutafjár í Gegn einokun ehf. orðið af 21 milljón króna í arð. Miskabótakrafan er upp á tvær milljónir króna og farið er fram á hálfa milljón króna í skaðabætur vegna tapaðs hlutafjár.  

Í stefnunni er farið fram á greiðslu 16 milljóna króna auk vaxta til þrotabús Gegn Einokunar ehf. Þar af fjórtán milljónir króna í skaðabætur vegna missis hagnaðar og tvær milljónir króna í miskabætur. 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV