Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Krefjast úrbóta við gangbraut yfir Hörgárbraut

12.10.2018 - 20:14
Íbúar við Hörgárbraut á Akureyri hafa fengið sig fullsadda af tíðum slysum á hættulegri gangbraut yfir götuna og krefjast úrbóta. Fulltrúi bæjarins segir undirgöng bestu leiðina en til þess skorti fjármagn.

Þjóðvegur eitt liggur í gegnum Akureyri og honum fylgir mikill umferðarþungi á Drottningarbraut, Glerárgötu og Hörgárbraut. Á hluta Hörgárbrautar er íbúabyggð sitt hvorum megin götunnar og mikil umferð gangandi fólks. Meðal annars barna úr hverfinu í Glerárskóla.

Taki fram úr kyrrstæðum bílum við gangbrautina

Þá er farið yfir gangbraut sem liggur yfir tvær akreinar í hvora átt og það býður hættunni heim. „Þegar þú ert að fara hérna yfir, getur þú aldrei verið hundrað prósent með það á hreinu að þú komist yfir í rauninni,“ segir Auður Inga Ólafsdóttir, fulltrúi í hverfisráði Holta- og Hlíðahverfis. Því þar sem engin gangbrautarljós séu þarna, taki ökumenn fram úr kyrrstæðum bílum sem eru að hleypa gangandi yfir götuna.

Ljósin fari upp á næstu vikum

En staurarnir fyrir gangbrautarljósin eru löngu komnir. „Þetta er búið að vera tilbúið hérna í einhverja mánuði. Þeir byrjuðu á þessu í maí og það er kominn október,“ segir Auður. „Við höfum bara verið að bíða eftir búnaðinum, svo hefur búnaðurinn verið í prófunum. En það er von á að þetta komi í gang á næstu vikum,“ segir Pétur Ingi Haraldsson, sviðsstjóri skipulagssviðs Akureyrarbæjar. 

Vilja göngubrú eða undirgöng

Auður segir að þótt gangbrautarljós hjálpi, þurfi róttækari aðgerðir til framtíðar, göngubrú yfir götuna eða undirgöng. „Við viljum annaðhvort fá brú eins og er yfir allar helstu stofnæðar Reykjavíkur. Þó þær séu náttúrulega mun stærri, þá er þetta stofnæð inni í Akureyri,“ segir hún. „Það er annaðhvort að fá það eða göng. Og ég veit að í deiliskipulagi 2010 þá hefur verið sett fram að það eigi að setja göng og leggja þessa gönguþverun af.“

Vilji bæjarins að þarna verði undirgöng

Og Pétur tekur undir að þarna séu vondar aðstæður. „Enda er það vilji sveitarfélagsins að það verði undirgöng og það er búið að gera ráð fyrir undirgöngum í skipulagi í nokkur ár. Það er að segja undirgöng undir brúna yfir Glerá.“ Og þá verði gangbrautin fjarlægð. En þetta sé spurning um fjármagn og þar sem þetta er þjóðvegur eitt, í eigu Vegagerðarinnar, þurfi meðal annars að sækja þann pening í ríkissjóð. „En við erum á skipulagssvæði bæjarins og það var gerð, fyrir nokkru síðan, úttekt á þjóðveginum í gegnum bæinn og eftir þá vinnu fékkst fjármagn frá ríkinu. Svo kemur bærinn líka inn í það verkefni bæði með útfærslu og fjármagn.“ 

Skrýtið að þurfa alltaf að fara í hart      

„Auðvitað skilur maður áhyggjur íbúanna og það er ekki óskastaða að hafa þetta svona. Við erum bara að reyna að gera okkar besta í þessum málum og ýta á þá sem eru með fjármagnið,“ segir Pétur. Þrjú alvarleg slys hafa orðið á þessum stað á skömmum tíma, þar sem ekið var á gangandi vegfarendur. Síðast varð fimm ára sonur Auðar fyrir bíl og fótbrotnaði. „Mér finnst bara svolítið skrýtið að maður þurfi alltaf að fara í eitthvað hart til að fá einhverju öryggi framgengt,“ segir hún.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV