Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Krefjast þess að farþegar afsali sér bótarétti

04.10.2019 - 20:08
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett
Farþegar úr tveimur farþegaþotum frá Wizz Air sem lentu á Egilsstöðum í dag eftir að hætt var við að lenda í Keflavík fá ekki að yfirgefa vélina á staðnum nema þeir skrifi undir skjal um borð sem segir að þeir geri það á eigin ábyrgð.

 Jórunn Edda Helgadóttir var um borð í vél Wizz Air frá Kraká í Póllandi og lenti á Egilsstöðum. Hún segir að ef farþegar nái að fara úr vélinni án þess að skrifa undir skjalið hjá áhöfn verði það afgreitt sem öryggisbrot og viðkomandi farþegi tilkynntur.  

Farþegar sátu lengi um borð í vélinni eftir lendingu og vissu ekki hver næstu skref yrðu. Þeir sem fara frá borði verða tollafgreiddir og fá ekki að snúa aftur um borð.

„Við fáum ekki að fara út án þess að skrifa undir þetta,“ segir Jórunn. Gangi farþegar frá borði standa þeir sömuleiðis eftir á eigin fótum, þar sem vélarnar munu snúa aftur til Póllands.  

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia var það flugfélagið sem tók þá ákvörðun að lenda á Egilsstöðum. Einhver hluti hópsins úr þessum tveimur vélum ætlar að fara frá borði og koma sér áfram á eigin vegum. Aðrir fari aftur til baka með vélunum.