Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Krefjast þess að boðað verði til kosninga

15.09.2017 - 16:34
Mynd með færslu
 Mynd: Milla Ósk Magnúsdóttir - RÚV
Um hundrað manns eru nú samankomin á Austurvelli undir yfirskriftinni Höfum hátt. Þar er þess krafist að boðað verði til kosninga við fyrsta mögulega tækifæri.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sprakk í gærkvöld eftir átta mánuði við völd þegar stjórn Bjartrar framtíðar sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis. Í yfirlýsingunni var skýringin sögð vera það sem kallað er alvarlegur trúnaðarbrestur á milli flokksins og forsætisráðherra. Trúnaðarbresturinn sem Björt framtíð vísar til snýr að upplýsingum um mál Hjalta Sigurjóns Haukssonar, dæmds barnaníðings, og því að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, hafi skrifað undir meðmælabréf til stuðnings þess að æra Hjalta fengist uppreist.

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra greindi frá því í gær að hún hefði í lok júlí sagt Bjarna frá undirritun föður hans.

Kvenréttindafélag Íslands segir í yfirlýsingu fyrr í dag að ríkisstjórnin hafi fallið vegna þess að fólk hafði hátt um ofbeldi sem konur og börn voru beitt. Samfélagið hafi ekki lengur umburðarlyndi fyrir kynbundnu ofbeldi.