Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Krefjast öruggra starfsaðstæðna fyrir heimilislækna

Hönd í vasa læknisslopps og hlustunarpípa.
 Mynd: sanja gjenero - RGBStock
Stjórn Félags Íslenskra heimilislækna fer fram á það við stjórnvöld að starfsaðstæður heimilislækna í faraldrinum sem gengur yfir vegna Covid-19 verði gerðar eins öruggar og unnt er. Þetta kemur fram í áskorun sem send var Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, á sunnudag. Stjórnin telur að aðstæður til fullnægjandi sóttvarna séu almennt ekki nægar á heilsugæslustöðvum landsins.

Mikið hefur mætt á starfsfólki heilsugæslustöðva undanfarnar vikur. Þangað berst fjöldinn allur af símtölum á hverri klukkustund og sýni eru tekin úti við til að kanna hvort fólk sé smitað af veirunni. Í erindi stjórnar heimilislækna til ráðherra segir að heimilislæknar og samstarfsfólk þeirra séu í framlínunni í heilbrigðisþjónustunni og að aðstæður þeirra til sóttvarna séu ólíkar því sem gerist á sjúkrahúsum.

Vísað er í grein í vísindatímaritinu Medscape um hvað hægt sé að læra af Ítalíu þar sem kafli er um heimilislækna og aðstæður þeirra. Þar höfðu 50 heimilislæknar smitast og þrír látist 11. mars síðastliðinn.

„Íslenskir heimilislæknar eru fáir miðað við höfðatölu og fullorðnir. Um helmingur þeirra er 60 ára og eldri, jafnframt því að margir þeirra eru með undirliggjandi sjúkdóma,“ segir í erindi stjórnarinnar til ráðherra. Félagið hafi bent á þennan skort árum saman en að aðgerðir til að mæta skorti lækna hafi því miður verið takmarkaðar. „Mönnun heimilislækna á landsvísu er mjög tæp og nú þegar eru afföll nær daglega á Læknavaktinni,“ segir í erindinu.

Ein heilsugæslustöð er í sóttkví og telur stjórnin hættu á að slíkt hendi á fleiri stöðum. „Heimilislæknar og samstarfsfólk þeirra eru mjög útsett fyrir smiti og aðstæður til fullnægjandi sóttvarna eru almennt ekki fullnægjandi á heilsugæslum landsins. Ljóst er að bregðast þarf við þessu strax, endurskoða allt vinnufyrirkomulag og sameina áhættusamari þjónustur á þeim stöðum þar sem slíku verður við komið,“ segir í áskoruninni. Þetta sé nauðsynlegt bæði til að tryggja öryggi heimilislækna og samstarfsfólks, samhliða því að geta tryggt áframhaldandi þjónustu heilsugæslu í landinu. Stjórn félagsins kveðst tilbúin til samstarfs um úrbótatillögur sé þess óskað. Undir erindið rituðu Salóme Ásta Arnardóttir, formaður stjórnarinnar og Oddur Steinarsson, varaformaður.