Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Krefjast lögbanns í tengslum við smálán

12.09.2019 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Neytendasamtökin hafa krafist lögbanns á fyrirtæki sem innheimtir skuldir hjá fólki sem tekið hefur lán hjá smálánafyrirtækjum. Dæmi er um einnar og hálfrar miljónar króna skuld sem hækkaði í þrjár milljónir á einu ári, segir formaður samtakanna.  Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna segir ótrúlegt hvað starfsemi fyrirtækisins virðist umfangsmikil og óskammfeilin. 

Neytendasamtökin sendu Sýslumanninum á höfuðborgarssvæðinu lögbannsbeiðnina á mánudag og beinist hún að Almennri innheimtu ehf. og fyrirsvarsmanni þess. 

„Við teljum okkur sýna fram á það að þeir innheimti án þess að sýna fram á kröfurnar og í raun og veru leyni upplýsingum um kröfurnar. Það er að segja réttmætum upplýsingum sem neytendur eiga að fá. Og að kostnaður við innheimtuna sé mun hærri heldur en lög heimila,“ segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna.

Samtökin standa á málarekstrinum með stuðningi VR. 31 skjal er lagt fram með lögbannsbeiðninni. Smálánafyrirtækin eru nú skráð í Danmörku. Breki segir að þau eigi samt sem áður að fara að íslenskum lögum og samtökin hafi yfirlýsingu þar um frá dönskum yfirvöldum. Fyrirtækið Almenn innheimta er fyrsta af mörgum fyrirtækjum sem Neytendasamtökin hyggjast fara gegn. Samtökin hafa safnað miklum gögnum og segir Breki neytendur hafa sent samtökunum upplýsingar. 

„Það er eiginlega alveg ótrúlegt hvað þessi starfsemi virðist vera umfangsmikil og óskammfeilin.“

Geturðu nefnt dæmi um þann sem tekur smálán og þarf svo að borga?

„Í þeim dæmum sem við erum með þá tekur fólk yfirleitt ekki eitt smálán heldur tekur svona raðlán. Þ.e.a.s. þú tekur fyrst tíu þúsund krónur og svo geturðu ekki borgað það þá tekurðu 15 þúsund, svo 25 þúsund o.s.frv. Þannig að þetta er svona snjóbolti sem rúllar. Við erum með dæmi um það að fólk hefur tekið, ja, allt að eina og hálfa milljón á einu ári í svona rúllandi lánum og borgar til baka allt að þrjár milljónir.“

Og það er andstætt lögum?

„Og það er miklu hærra en lög heimila.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Breki Karlsson
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV