Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Krefjast 425.000 króna lágmarkslauna

10.10.2018 - 18:07
Mynd: Starfsgreinasamband Íslands / Starfsgreinasamband Íslands
Starfsgreinasambandið krefst þess að lágmarkslaun verði 425.000 krónur. Þá er þess krafist að lægstu laun verði skattfrjáls. Sambandið samþykkti kröfugerðir gagnvart stjórnvöldum og atvinnurekendum á fundi í dag.

Í kröfugerð gagnvart atvinnurekendum er þess krafist að lágmarkslaun verði 425.000 krónur í lok samningstímans, að því gefnu að ekki komi til umtalsverðra skattkerfisbreytinga. Þá er þess krafist gagnvart stjórnvöldum að lægstu laun verði skattfrjáls með því að tvöfalda persónuafslátt. 

Þjóðarátak í húsnæðismálum

Húsnæðismál eru fyrirferðamikil í kröfugerðunum. Sambandið vill að heimildir atvinnurekanda til þess að hafa húsaleigu hluta af kjörum verði takmarkaðar og heimilað verði eftirlit með slíkum kjörum. Gerð verði krafa um að húsaleiga sé aðeins rukkuð samkvæmt þinglýstum húsaleigusamningi í samræmi við eðlilegt leiguverð.

Þá er kallað eftir þjóðarátaki í húsnæðismálum. Sambandið vill að ráðist verði í sameiginlegt átak ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða og skoðaðar verði útfærslur sem geri ráð fyrir fjármögnun verkamannabústaðakerfis. 

Viðtöl við Björn Snæbjörnsson, formann Starfsgreinasambandsins, og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, má sjá í spilaranum hér að ofan. 

Kröfugerðirnar í heild má nálgast hér. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV