Krefja laxeldisfyrirtæki um milljarða fyrir verðsamráð

10.01.2020 - 06:31
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd:
Kanadískir neytendur saka norsk og skosk laxeldisfyrirtæki um ólögmætt verðsamráð og krefjast hátt í 50 milljarða króna í skaðabætur. Kanadíska ríkissjónvarpið CBC greinir frá þessu. Ætlunin er að höfða hópmálsókn á hendur norsku laxeldisfyrirtækjunum fyrir hönd allra kanadískra neytenda, sem keypt hafa norskan eldislax frá og með 1. júlí 2015.

Aðgerðasinninn Irene Breckon, sem leggur kæruna fram, segir brýnt að berjast gegn stórfyrirtækjum eins og norsku laxeldisfyrirtækjunum, sem misnoti aðstöðu sína til að hafa fé af venjulegu fólki. Hún lagði málið fyrir dómstól í Toronto hinn 3. janúar, og fer fram á 500 milljónir Kanadadollara, 47,5 milljarða íslenskra króna í bætur.

Fyrirtækin sem hún sakar um verðsamráð eru Grieg Seafood, Lerøy Seafood Group, Mowi og Salmar, nokkur bandarísk og kanadísk dótturfyrirtæki þeirra og skoska laxeldisfyrirtækið Scottish Sea Farms. Öll neita fyrirtækin sakargiftum og dómari á eftir að úrskurða um það, hvort grundvöllur sé fyrir málshöfðuninni yfir höfuð. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV