Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Krapastíflan heldur þrátt fyrir leysingar

19.01.2020 - 12:22
DCIM\100MEDIA\DJI_0580.JPG
 Mynd: Lögreglan á Suðurlandi
Þrátt fyrir leysingar í morgun hafði krapastíflan sem hafði myndast í Hvítá við Vaðnes í Grímsnes- og Grafningshreppi ekki rutt sig líkt og óttast var. Svæðið verður vaktað næstu daga.

Lögreglan á Suðurlandi hefur vaktað stífluna undanfarna daga en óttast var að ós Höskuldslækjar sem rennur í Hvítá væri lokaður og að vatnið úr honum leggðist að sumarhúsbyggðinni á bökkum árinnar í Vaðnesi.

Tvö ár eru síðan mikil krapastífla myndaðist á sama stað. Þá flæddi að sumarhúsum þannig að vatnstjón varð en krapastíflan nú er öllu og er ekki vitað til þess að tjón hafi orðið. Ekki var talið ráðlegt að rjúfa klakastífluna en áhyggjur lögreglu sneru einkum að því að stíflan brysti ef aðstæður breyttust hratt, til dæmis í asahláku. Sem varð og raunin í nótt því mikið hefur rignt á svæðinu og hitastig allt upp í fimm gráður.

Lögreglumenn af Selfossi könnuðu aðstæður í Vaðnesi í morgun og segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn, að ástandið sé óbreytt og var stíflan ekki búin að ryðja sig. Lögreglumenn höfðu dróna með í för og hugðust fljúga honum yfir svæðið en ekki var hægt að koma honum á loft vegna vinds. Áfram verður fylgst með svæðinu næstu daga.