Krafa um lægri kostnað ýtir Bjargi til útlanda

21.11.2018 - 14:52
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Þrýstingur um hagkvæmni sem fylgdi stofnframlögum frá Íbúðalánasjóði varð til þess að Bjarg íbúðafélag ákvað að reisa einingahús á Akranesi sem framleidd eru í Lettlandi og flutt hingað til lands. Þetta segir Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs. Íslenska félagið Modulus byggir 33 íbúðir í einingahúsum fyrir Bjarg og á að afhenda fyrstu 22 íbúðirnar um miðjan maí á næsta ári.

Bjarg er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu húsnæði í langtímaleigu. Björn segir þrýsting um aukna framleiðni í byggingariðnaði verða til þess að byggingarnar séu keyptar nær fullgerðar frá útlöndum, en ekki byggðar frá grunni hér á landi. „Framleiðniaukningin verður þarna. Byggingartími íbúða á Íslandi er að jafnaði eitt og hálft ár en með þessari aðferðafræði náum við byggingartíma niður í átta mánuði. Það skiptir máli að koma íbúðum fyrr á markaðinn.“

Björn bendir á að stærstur hluti iðnaðarmanna á Íslandi séu erlent vinnuafl. Þannig sé það einnig í þessu verkefni þar sem stór hluti íbúðanna sé unninn af erlendu vinnuafli. Eini munurinn á þessu verkefni og öðrum er að launin eru greidd erlendis í heimalandi starfsmanna. „Mér finnst ekki óeðlilegt að verkaýðshreyfingin taki þátt í þessu verkefni,“ segir hann þegar hann er spurður um tengsl ASÍ og BSRB við verkefnið.

Björn segir Bjarg hafa lagt áherslu á að ákvæði keðjuábyrgðar séu í öllum samningum félagsins og að gætt sé að kjörum starfsamanna. Forsvarsmenn Bjargs ætli á næstunni að fara utan til þess að kanna aðstæður í verksmiðjunum þar sem einingahúsin eru framleidd. Þá hafi Vinnueftirlitið kannað aðstæður á Akranesi.

„Ég yrði mjög ánægður ef svona verksmiðja væri á Íslandi. Þá myndum við hugsanlega versla við hana,“ segir hann.

Bjarg byggir íbúðir víðar en á Akranesi. Ekki eru allar íbúðirnar byggðar í einingahúsum. Framkvæmdir eru hafnar við Móaveg og Urðarbrunn í Reykjavík. Þá mun Bjarg byggja við Hallgerðargötu við Kirkjusand í Reykjavík og við Guðmannshaga á Akureyri.

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Teikning af húsunum á Akranesi.
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi