Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„KR-ingar geta leyft sér það en við ekki."

Mynd: RÚV / RÚV

„KR-ingar geta leyft sér það en við ekki."

13.08.2015 - 16:38
„KR ingar eru með frábært lið sem sýnir sig í því að þeir mæta seint hingað á fundinn vegna þess að þeir æfa alltaf í hádeginu. Það er meira en önnur lið geta. Við getum það ekki og þeir hafa svolítið forskot á okkur."

Þetta sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, í viðtali við RÚV á fjölmiðlafundi sem haldinn var í höfuðstöðvum KSÍ í hádeginu í dag fyrir bikarúrslitaleik karla í knattspyrnu milli Vals og KR sem fram fer á Laugardalsvelli á laugardaginn.

Þeir meiddu verða með
Lykilmenn Vals hafa glímt við meiðsli undanfarið og er t.a.m. óvíst með þátttöku fyrirliðans Hauks Páls Sigurðssonar, markmannsins Ingvars Kale og Patricks Pedersen, sem er markahæsti leikmaður Pepsídeildarinnar.

Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR telur þó enga óvissu ríkja með þátttöku þeirra í leiknum. „Ég hef nú ekki mikla trú á að það verði margir leikmenn hjá Val sem missa af þessum leik. Ég hugsa að allir þessir leikmenn sem rætt hefur verið um í þessum meiðslasögum hjá þeim verði í byrjunarliði þeirra á laugardaginn." segir Bjarni.

Ólafur ekki bjartsýnn
„Vonandi eru þeir að skríða saman en það er óljóst á þessari stundu hvernig staðan á þeim er. Ég er ekkert ofboðslega bjartsýnn með þá alla." segir Ólafur þjálfari Vals.

Viðtöl við Ólaf og Bjarna má sjá í myndskeiði við þessa frétt í spilaranum hér að ofan.