
Köstuðu kjörkassanum í sjóinn við Grímsey
Þegar ljóst var að ferjan kæmist ekki inn í höfnina, vegna veðurs, var brugðið á það ráð að ganga rækilega frá kjörkassanum í vatnsheldum umbúðum og svo var honum kastað í sjóinn. Ferjan var þá um 2 mílur utan við höfnina. Tveir sjómenn á trillu komu síðan á móti ferjunni, sem beið við kjörkassann í sjónum, veiddu hann upp og komu honum áfram í land í Grímsey.
Ekki vildi þó betur til en svo að atkvæðaseðlarnir, sem fylgja áttu kjörkassanum, urðu eftir um borð í ferjunni. Þeir voru í sér poka og mannleg mistök urðu til þess að pokinn fylgdi ekki með kjörkassanum. Þyrla Landhelgisgæslunnar var því fengin til þess að fljúga með atkvæðaseðlana til Grímseyjar.
Þyrlan lenti á Akureyri um 15:30 og tók þar eldsneyti. Þaðan flýgur hún til Dalvíkur og tekur atkvæðaseðlana sem eru enn um borð um borð í Sæfara. Reiknað er með að hún lendi í Grímsey á sjötta tímanum.