Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Köstuðu kjörkassanum í sjóinn við Grímsey

Mynd með færslu
 Mynd: Anna María Sigvaldadóttir
Það sannaðist í dag að Grímseyingar deyja aldrei ráðalausir. Eins og fram hefur komið hefur verið ófært til Grímseyjar undanfarna daga og hvorki hægt að fljúga þangað eða sigla. Gerð var tilraun til að komast þangað á Grímseyjarferjunni Sæfara í dag, með kjörkassann vegna alþingiskosninganna innanborðs.

Þegar ljóst var að ferjan kæmist ekki inn í höfnina, vegna veðurs, var brugðið á það ráð að ganga rækilega frá kjörkassanum í vatnsheldum umbúðum og svo var honum kastað í sjóinn. Ferjan var þá um 2 mílur utan við höfnina. Tveir sjómenn á trillu komu síðan á móti ferjunni, sem beið við kjörkassann í sjónum, veiddu hann upp og komu honum áfram í land í Grímsey.

Ekki vildi þó betur til en svo að atkvæðaseðlarnir, sem fylgja áttu kjörkassanum, urðu eftir um borð í ferjunni. Þeir voru í sér poka og mannleg mistök urðu til þess að pokinn fylgdi ekki með kjörkassanum. Þyrla Landhelgisgæslunnar var því fengin til þess að fljúga með atkvæðaseðlana til Grímseyjar.

Þyrlan lenti á Akureyri um 15:30 og tók þar eldsneyti. Þaðan flýgur hún til Dalvíkur og tekur atkvæðaseðlana sem eru enn um borð um borð í Sæfara. Reiknað er með að hún lendi í Grímsey á sjötta tímanum.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV