Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Köstuðu eggjum í lögreglustöðina

09.11.2015 - 19:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Enn eru um 60 til 70 manns við lögreglustöðina við Hverfisgötu að mótmæla því að lögregla óskaði ekki eftir gæsluvarðhaldi yfir meintum kynferðisbrotamönnum. Nokkrir hafa kastað eggjum. Rannsókn málsins er langt komin, að sögn lögreglu.

Greint hefur verið frá rannsókn kynferðisbrotamálsins í fjölmiðlum annað slagið undanfarnar vikur. Samkvæmt heimildum fréttastofu áttu meint brot sér stað 19. september og 14.október. Kærurnar voru lagðar fram nokkrum dögum eftir seinna brotið - þá var mánuður liðinn frá að fyrra brotið á að hafa átt sér stað. Húsleit var gerð 20. október á meðan mennirnir voru í haldi lögreglu. Í dag kvað við nýjan tón þegar Fréttablaðið sló því upp að meint brot hefðu verið framin í íbúð í Hlíðunum sem væri sérstaklega útbúin til nauðgana. Þar voru meint brot sögð hrottaleg. Fréttin vakti hörð viðbrögð og hundruð manna mótmæltu við lögreglustöðuna á Hverfisgötu síðdegis. 

„Það hafa verið svo mörg mál sem hafa komið upp undanfarið,“ segir Oddný Arnarsdóttir skipuleggjandi mótmælanna. „Og ég veit að þetta mál er ekki klárað eða neitt þannig, en fólk þurfti að koma saman og láta heyra í sér. Fólk er komið með nóg.“

Sólon Birkir Sveinsson einn mótmælenda sagðist hafa mætt til að sýna almennan stuðning. „Þetta mál sem er verið að tala um núna er alveg ákveðin hvatning til að mæta líka.“

Ingunn M. Blöndal ávarpaði fundinn og minnti á að konur séu líka gerendur í kynferðisbrotamálum og karlmenn líka þolendur. „Þetta er ekki kynjabundið, þetta er samfélagsmein og þetta þarf að uppræta strax.“

Baulað á lögreglustjórann

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri ávarpaði fundinn og lýsti því yfir að málið yrði rýnt til gagns, og vilji lögregluyfirvalda stæði til þess að gera allt til að efla rannsóknir á kynferðisbrotum. Hún gæti þó ekki tjáð sig um einstaka mál. Ræðan féll þó i grýttan jarðveg og púaði mannfjöldinn á hana. 

Alda Hrönn Jóhannesdóttir lögfræðingur á skrifstofu lögreglustjóra, segir að ekki hafi verið óskað eftir gæsluvarðhaldi því rannsóknarhagsmunir hafi ekki krafist þess. Þá hafi ekki þótt sterkur rökstuddur grunur út af almannahagsmunum. Rannsókn málsins sé langt komin. 

Mennirnir sem kærðir hafa verið í málunum hafa verið nafngreindir í dag á samfélagsmiðlum. „Ég tel að þetta sé yfir strikið, þetta sé óheimil nafnbirting sem er verið að dreifa á samfélagsmiðlum og ég vil vara fólk við að dreifa slíku,“ segir Sigríður Rut Júlíusdóttir lögmaður og minnir á að rannsókn málsins er enn í gangi. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV