
„Skapgerðin er ósköp einfaldlega starf heilans og heilinn er með eiginleika sem erfast eins og öll önnur líffæri. Skapgerðin er starfsemi heilans. Ef hún fær hund sem er með nákvæmlega eins heila og Sámur þá kemur hann til með að haga sér að mestu leyti nákvæmlega eins ef hann er alinn upp á sama máta. Staðreyndin er þó sú að hún fær út úr þessu eitthvað sem nálgast það að vera eineggja tvíburi Sáms,“ sagði Kári í Morgunútvarpi Rásar 2.
Segir Kári að hundaklónun kosti um sjö milljónir króna. Því sé ekki á færi allra að nýta sér slíka þjónustu. Þetta sé munaður sem aðeins þeir ofurríku geti leyft sér. „Ef menn vilja horfa á þetta með gagnrýnni augum þá er að vissu leyti skringilegt að mönnum finnist sín gæludýr svo mikið merkilegri en annarra að það verði að klóna þau. Ég held í sjálfu sér að það sé ekkert rangt við það en þetta er náttúrulega munaður sem þeir ofurríku geta leyft sér í þessum heimi og þeir sem minna mega sín geta ekki,“ segir hann.