Kosningu lokið á kjördæmisþingi Framsóknar

Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Tvöfalt kjördæmisþing hjá Framsóknarflokknum í Norðausturkjördæmi hófst nú á ellefta tímanum í morgun en þar skýrist hvernig listi flokksins í kjördæminu verður skipaður. Fjórir þingmenn gefa kost á sér til að leiða listann - Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Höskuldur Þórhallsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir.

374 eru á kjörskrá en ekkert er vitað hversu margir mæta. Kjördæmisþingið hófst á því að allir frambjóðendurnir fjórir fengu tækifæri til að kynna sig fyrir fundargestum og stóð sú kynning yfir í tæpan klukkutíma.

Síðan var gengið til kosninga og lauk henni tæplega korter yfir tólf á hádegi. Reglurnar eru þær að ef enginn fær yfir 50 prósent atkvæða verður að kjósa aftur milli tveggja efstu.

Mikil spenna er fyrir kjördæmisþinginu. Birgir Guðmundsson, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, sagði til að mynda á Morgunvaktinni á Rás 1 fyrir skemmstu að kjördæmisþingið gæti reynst ögurstund fyrir bæði Sigmund Davíð og Höskuld Þórhallsson.  „Í þessum kosningum á kjördæmisþinginu að þá held ég að þetta sé sko eiginlega „live or let die“ fyrir bæði Höskuld og Sigmund Davíð. Því að ef Sigmundur Davíð nær ekki fyrsta sætinu hér í kjördæminu þá er hann eiginlega bara úr leik.“

 

Fram kemur í úttekt Morgunblaðsins í morgun að Sigmundi Davíð sé spáð sigri í dag.  Þar kemur einnig fram að ekki sé búist við mikilli þátttöku og að milli 200 og 250 fulltrúar muni mæta.

Þá lýsti Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, yfir fullum stuðningi við Sigmund í viðtali við Fréttablaðið í gær  - þar benti hann á að fylgi Framsóknarflokksins hefði farið niður í sex til sjö prósent þegar Sigmundur steig til hliðar en hefði farið aftur upp þegar hann sneri aftur.

 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi