Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kosningaþátttaka var betri meðal kvenna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kosningaþátttaka í sveitarstjórnarkosningum í vor var betri á meðal kvenna en karla. Kjörsókn í sveitarstjórnarkosningum jókst í ár í fyrsta skipti frá 2002. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.

Alls voru 247.943 á kjörskrá og greiddu 167.622 atkvæði. Kosningaþátttaka var því 67,6% í vor sem er 1,1 prósentustigi hærra en 2014.  Kjörsókn meðal kvenna var 68,8% en 66,5% meðal karla.

Minnst á meðal 20 til 24 ára

Kosningaþátttaka var minnst hjá fólki á aldrinum 20-24 ára, innan við helmingur þessa aldurshóps greiddi atkvæði eða 48,1%. Kjörsókn var betri meðal þeirra yngstu (18 og 19 ára) eða 53,7 %. Mest var kjörsókn í aldurshópnum 65-74 ára eða 83%. 

Mynd með færslu
 Mynd: Hagstofa Íslands
Ungt fólk skilaði sér síður á kjörstað.

Minnst var kjörsókn í Reykjanesbæ aðeins 57% en mest í Árneshreppi eða 93,5%. Kosningaþátttaka í Reykjavík var svipuð og á landinu í heild eða 67,1%. Kjörsókn var lægst í sveitarfélögum með 10.000 til 99.999 íbúa en jókst eftir því sem sveitarfélgö voru fámennari.   

Þátttaka erlendra ríkisborgara minnkar

Sé litið til ríkisfangs þá er kjörsókn erlendra ríkisborgara lakari nú en 2014. Kosningaþátttaka norrænna ríkisborgara var 51,4% og annarra erlendra ríkisborgara 15,3%. Árið 2014 var kjörsókn norrænna ríkisborgara 56,7% og annarra erlendra ríkisborgara 17%. 

Mynd með færslu
 Mynd: Hagstofa Íslands
Kjörsókn er mun lakari meðal erlendra ríkisborgara.

Niðurstöður Hagstofunnar byggja á gögnum frá öllum 72 sveitarfélögum. Öll sveitarfélög sendu gögn um almenna kosningaþátttöku en einungis bárust gögn frá 39 sveitarfélögum um kjörsókn eftir aldri og ríkisfangi. Þau ná þó til ríflega 70% einstaklinga á kjörskrá. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV